Þegar við vöknuðum í morgun skrifuðum við orðið túrhestar á ennin á okkur, fórum niður í móttöku klukkan átta og biðum eftir að túrhestarútan kæmi að sækja okkur. Við áttum nefnilega bókaða sýnisferð um helstu ferðamannastaði bæjarins.
Þegar við komum í rútuna sáum við að stærstur hluti samferðafólks okkar var asískir ferðamenn. Þegar rútan rúllaði af stað og fararstjórinn var búinn að útlista dagskránni fór fólk að skrafa eins og venja er og fæstir á þeim tónamálum sem við erum vön að heyra hér um slóðir og ekki var það enska. Þau töluðu nánast öll hollensku!
Hué er helst þekkt fyrir að hafa verið höfuðvígi Víetnam á árunum 1802-1945, hún er nú á heimsminjaskrá UNESCO. Á þessum árum var Víetnam stjórnað af Nguyén keisaraveldinu og urðu keisarar þess þrettán talsins, þó misvaldamiklir. Fyrsti keisarinn var sennilega þeirra áhrifamestur og vísaði fararstjórinn í hann sem föður landsins.
Meðal þess sem hann kom í verk var að gefa landinu nafnið Víetnam. Fyrsta tillaga hans var reyndar Nam Viet en þeirri tillögu var hafnað af Kínverjum sem töldu nafnið minna um of á hérað í Kína (minnir aðeins á deilur Makedóníu og Grikklands á vorum dögum).
Fyrsta stopp útsýnisferðarinnar var borgarvirkið en inn í því er hin forboðna fjólubláa borg. Borg þessi var eingöngu ætluð kóngafólki en í dag mega allir koma sem séð geta af 55.000 víetnömskum dongum (u.þ.b. 200 ISK) og það gátum við bæði. Í borginni koma tölurnar fimm og níu við sögu aftur og aftur, enda tölur keisarans. Litur keisarans var gulur (eins og í Tælandi) og var þessu svo öllu blandað saman í myndum af drekum með fimm klær, en drekar voru að sjálfsögðu enn eitt af táknum keisarans.
Í ferðinni skoðuðum við líka tvö grafhýsi konunga og eina pagódu. Fyrra grafhýsið, Tu Duc, var sveipað nokkurri dulúð því enginn veit hvar líkið er. Eitt er víst að það er ekki í grafhýsinu en gæti mögulega verið einhversstaðar í garðinum umhverfis, sem er ekki lítill.
Ég verð nú að segja að seinna grafhýsið, Khai Dinh, líktist helst blöndu af listasafni og kastala, svo stórt og litríkt var það. Trilljón postulínsskálum, bjórflöskum og fleiru smallað og raðað upp í ótrúlegar myndir upp eftir öllum veggjum.
Síðasta stoppistöðin var Thien Mu pagódan sem hefur verið starfrækt síðan 1601. Miðað við kyrjið sem við heyrðum frá lókalmunkadrengjum virðist hún enn vera í fullum gangi. Eftir stutt stopp sigldum við heim á leið í drekabáti eftir Ilmá. Áin heitir þessu skemmtilega nafni því á árum áður lagði af henni blómaangan að vori þegar blómin uxu meðfram bökkum hennar.
Váááá, hvað ég veit mikið um Hué! Allt eftir eina svona ferð. Það er alveg nauðsynlegt að taka svona túra annað slagið því stundum nennir maður ekki að setja saman dagskrá sjálfur og þá fylgir heldur ekki loftkæld rúta í kaupbæti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli