Við erum komin til Hoi An sem er nokkurn veginn fyrir miðju Víetnam. Í rútunni út eftir var gert stutt stopp og þar hittum við lítinn og ákafan myntsafnara. Hann varð vonsvikinn að heyra að við værum ekki með neitt íslenskt klink á okkur og varð að gera sér að góðu seðil frá Óman og eina rúpíu.
Þegar við vorum komin á hótelið hér í Hoi An fóru þessu stuttu en alltof algengu samskipti fram:
Hún: Where you from?
Við: Iceland.
Hún: Oh, Ireland!
Ég get ekki sagt hve oft á dag þessi misskilningur kemur upp. Svo hjálpar það ekki þegar fólk spyr hvort við séu ekki rétt við Bretland því tæknilega séð er Bretland nágranninn í suðri og við getum ekki neitað. Þar með erum við þó að staðfesta í huga viðmælenda okkar að þeir hafi rétt fyrir sér, við séum í raun frá Írlandi og þannig botna þeir ekkert í því hvað við séum eiginlega að væla. Sumsé misskilingur sem er kominn til að vera.
Í óspurðum þá er tónik vatn drykkur drykkjanna hjá okkur skötuhjúum þessa daganna. Það vill svo heppilega til að í tónik vatni er kínín sem vinnur gegn malaríu. Svo hagkvæmt!
Af daglegu drykkjarvatni ber Aquafina höfuð og herðar yfir aðrar tegundir, 1,5 lítra flaska er á sex-átta þúsund dong, svona yfirleitt. Jógúrtin í Víetnam er mjög góð (og dísæt) en að horfa á erlent sjónvarpsefni er ekki gott. Maður heyrir í röddum leikaranna en yfir þær kemur síðan hljómlaus og óspennandi rödd sem snarar yfir á víetnömsku. Leikrænir tilburðir þar á bæ núll.
Að lokum vil ég benda á að við komumst ekki inn á blogspot síðuna okkar hér í Víetnam. Það var reyndar hægt í Hanoi en síðan ekki söguna meir. Við komumst hins vegar inn á blogger síðuna og getum því sent út færslur en fáum ekki að sjá útkomuna. Þetta er því nokkurs konar bloggað í blindni. Þetta þýðir að sjálfsögðu að við getum ekki svarað þeim skemmtilegu ummælum sem síðunni hafa borist að undanförnu, göngum í það strax og stjórnvöld leyfa. Góðar stundir.
1 ummæli:
Tónik er beiskt hland
Skrifa ummæli