Við tókum því rólega í dag, fannst við eiga skilið smá hvíld eftir þeyting undanfarinna daga. Auk þess vorum við með vott af kvebbelsi og það ber alltaf að taka alvarlega. Það vildi svo vel til að sólin skein í fyrsta skiptið í þrjá daga svo það hefði ekki getað verið betri innidagur, við viljum bara vera úti þegar það er skýjað!
Í staðinn fyrir að fara út í sólina héngum við á netinu því tölvan góða þefaði uppi þráðlausa og ólæsta nettengingu. Við kíktum líka á sjónvarpið, á Star World var verið að sýna Dirty Work sem var fyndin og eftir hana horfðum við á Being Julia sem var bæði dramatísk og fyndin.
Með kvöldinu stungum við nefinu út fyrir hússins dyr. Vorum í stuði fyrir einfaldan kvöldmat og fengum okkur a la Digranesvegur: egg með hrísgrjónum og sætri chillísósu. Meira að segja sólhattsgostöflu með eins og gert er ráð fyrir.
Kvöldgönguna tókum við síðan um gamla hluta Hoi An. Þar er allt morandi í klæðskerum og margir koma hingað til að kaupa sér klæðskerasniðinn fatnað. Þar sem við höfum engan áhuga á því létum við okkur nægja að skoða úrvalið og strjúka flíkunum.
Enduðum bæjarferðina á skemmtilegu spjalli við stelpu í einu listagalleríanna. Sú er menntaður efnafræðingur sem hefur mikla ferðaþrá en sér ekki hvernig hún á að fjármagna ferðadraumana. Við ráðlögðum henni að fara í starfaskipti til Kína en þangað langar hana helst að fara.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli