mánudagur, 6. ágúst 2007

Linsusúpa

Bangkok er ævintýraleg borg og í svoleiðis borg lifir maður ævintýralegu lífi. Í gær urðum við Elfar t.d. vitni að uppljómun í Búddahofi rétt hjá Khao San vegi. Það var engin önnur en linsan á myndavélinni sem uppljómaðist og í tilefni af því kvaddi hún þennan heim. Þrátt fyrir þetta mikla þroskaskref linsunnar er ég nú ekki lengra kominn en svo að í stað þess að samgleðjast þá saknaði ég hennar.

Í dag var þó ráðin bót á þessu máli því Elfar hafði ætlað að fjárfesta í stafrænni myndavél (óuppljómaðri) í þessari Asíureisu og með stórviðburð gærdagsins í huga var farið í veiðiferð í Pantip Plaza. Pantip Plaza er verslunarmiðstöð sem sérhæfir sig í tölvum og öðrum skyldum vörum. Þetta reyndist sannkallað myndavélasafarí með óargadýrum vopnuð míkrófónum, auglýsingum og almennum ys og þys. Skondið var að sjá litla Búddamunkahópa ganga á milli sölubása, taka bæklinga og skoða allar tölvur í þaula til að gera sem best kaupin. Ég skemmti mér konunglega og ekki spillti að hópurinn okkar kom úr kringlunni atarna með splunkunýja myndavél.

Til að koma í veg fyrir að nýja myndavélin fetaði sömu andlegu leiðina og frænka hennar buðum við henni á myndina Hairspray og talandi um að Bangkok sé ævintýraleg þá rakst einhver utan í mig meðan við röltum í bíóið. Ég pældi nú ekkert í því fyrr en mér fannst viðkomandi vera heldur lengi utan í mér og óvenjustaðfastur í að víkja ekki. Ég leit því í kringum mig til að sjá hvernig svona gaur liti út. Ekki þurfti að leita að kauða því sá eini sem kom til greina var sællegur og einstaklega sætur fílsungi. Bara í Bangkok!

Hairspray féll vel í meirihluta hópsins og var ágætt framhald af tælensku bíómyndinni sem við sáum í gær. Báðar stútfullar af tónlist, fallegu fólki og dansatriðum ýmiss konar. Ég nota bara Asíufrasann góðkunna: Same, same but different.

4 ummæli:

Unknown sagði...

same same but different - Baldur og fílsunginn...
mor

ásdís maría sagði...

Híhí, frábær sýn á lífið, alveg sammála henni :o)

ásdís maría sagði...

Annars er Hairspray alveg æðisleg, hún stefnir að ég held í að verða smá költ með tíð og tíma. Guði sé lof fyrir költið.

baldur sagði...

Ekki leiðinlegt að vera líkt við hinn fallega fílsunga :)