mánudagur, 10. september 2007

Gagn og gaman á tælensku

Það má segja að ég sé kominn í einhvers konar sex ára bekk því ég er byrjaður að læra að lesa og skrifa upp á nýtt. Ég er nefnilega svolítið að gutla í tælenskunámi og ólíkt því þegar ég lærði viðbótartungumál í grunn- og menntaskóla þarf ég að læra nýtt ritmál. Þetta byrjaði allt með því að ég keypti bókina Teach Yourself Thai og nú er ég farinn að mæta á Koddann og æfa mig.

Tælenska ritmálið er gullfallegt með alls kyns slaufum og minna sum táknin helst á einfaldar dýramyndir, enda eru þau oft nefnd eftir dýrum. Rætur ritmálsins eru indverskar og mörg tákn augljóslega náskyld hindí. Fyrstu pennastrokurnar dró ég hægt og vandaði mig mikið, samt voru táknin svolítið klossuð en það lagaðist með hverri endurtekningu. Þetta var semsagt alveg eins og í sex ára bekk nema hvað færnin kom mun hraðar og nú get ég skrifað nokkur falleg og læsileg tákn af miklu öryggi. Tælendingar eiga sér einnig sértalnakerfi, þó þeir noti arabísku tölurnar líka, og nú kann ég að telja upp í tíu.

Fyrstu tíu tölur talnakerfis eru að mínu mati þær allra mikilvægustu. Það sagði mér nefnilega góður maður, sem hefur kennt mér mikið um dagana, að oft á tíðum væri best að telja upp í tíu og anda með nebbanum. Þessa speki hef ég haft að leiðarljósi við ótalmargar aðstæður, allt frá því að hugleiða og til þess að forða krepptum hnefum frá óþarfri nálægð við grunlaus nef, nú get ég gert þetta á tælensku líka :)

Stafirnir sem ég kann núna eru:
ง, น, ม, ย, ร, ล, –ั –, –า, –ำ, –อ (- táknar eyðu fyrir stafi sem ættu að vera notaðir með)

Tölustafirnir (1-10):
๑, ๒, ๓, ๔, ๕, ๖, ๗, ๘, ๙, ๑0

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

respect, Zorba!
way to go!
ég kann ekki orð í tæ, en ég get talið upp að tíu á br. og kann að segja/skrifa: unan, daou, tri, pevar, pemp, c'hwec'h, seizh, eizh, nav, dek!
(jaríjaríjar, en það er sama ómyndræna stafrófið...)

baldur sagði...

Takk fyrir það Insula!

Ég er nú upp með mér að tungumálasnilli eins og þú sért að kommenta á fyrstu skref mín í tælensku.

Annars er það alltaf gott að geta talið upp á tíu og ekki spillir að geta gert það á sem skemmtilegastan hátt :)