fimmtudagur, 25. október 2007

Í garði Búdda

Við gerðum okkur ferð út fyrir borgarmörkin í dag. Sú ferð fól í sér rútuferð um rykuga sveitavegi en þó ekki í rútu, nær lagi væri að tala um stórt rúgbrauð. Ferðinni var heitið í lítinn garð 25 km fyrir utan borgina sem gengur undir heitinu Búddagarðurinn.

Eftir klukkutíma rúnt í rúgbrauðinu, með viðkomu á landamærum Tælands og Laos, vorum við komin í garðinn. Í garði Búdda er að finna búddastyttur og aðrar trúarlegar styttur, en auk þess eru þar fiðrildi, kyrrð og ró og óviðjafnanleg lykt af kerfli í loftinu, rétt eins og á Vífilsgötunni hjá Rut ömmu.

Stytturnar í garði Búdda er vel yfir fimm hundruð ára gamlar og voru flestar fluttar inn til Laos frá Indlandi. Það kom mér alveg á óvart hve fallegar margar þeirra eru og hve uppröðun þeirra gefur garðinum mikinn sjarma. Eins og nafnið gefur til kynna eru að sjálfsögðu ógrynnin öll af Búddastyttum í garðinum, smáum og stórum, þó sú stærsta sé óumdeilanlega hinn 20 metra liggjandi Búdda. Þá eru líka margar styttur af hindúa goðum með brugðin sverð og gyðjum með vænan barm, kyrrsett skjaldbaka liggur í sólbaði, risaslangan Naga með sína sjö hausa hræðir úr manni líftóruna, og nautið Nandi og Cupid* eiga vel heima í þessum kokteil.

Við vörðum dágóðum tíma í garðinum og prísuðum okkur sæl með að hafa komið seinnipart dags, þegar hitinn og sólin keppast um að hníga niður og birtuskilyrði verða öll hagstæðari mannfólki. Við gátum því óáreitt gengið nokkra hringi í garði Búdda og notið þess að vera til í Asíu.

-----------------
* Ég stenst ekki mátið að láta eina sögu af Baldri fylgja hér með fyrst minnst var á ástarengilinn Cupid í færslunni. Einhverju sinni var ég með mynd af föllnum cupid á tölvuskjánum, ör í hjartastað og kramdir vængir. Baldur gengur framhjá, staldrar andartak rýnandi á skjáinn og spyr svo: Hver er þessi cupid? Einhver fugl?

3 ummæli:

baldur sagði...

Kerfilsilmurinn í garðinum spilaði svipað hlutverk hjá mér og komu óneitanlega í hugann minningar af mér og Stellu Soffíu litlusystur á beit í garðinum á Þinghólsbrautinni.

Varðandi Cupid á ég engin varnarorð.

Unknown sagði...

Umm kerfill! Fræin voru best fannst mér :-) Og svo var gaman að fara í frumskógarleik inni í trénu.

Unknown sagði...

Cupido eða Eros öðru nafni.
Sætur engill.
Amor vincit omniae.
Já, ummm kerfill!