miðvikudagur, 24. október 2007

Lao menning í hnotskurn

Lao menningardagurinn var í dag! Mikill fjöldi lagði af stað frá Joe Guesthouse og heimsótti Þjóðarsafn Lao. Fjöldinn samanstóð af tveimur manneskjum á aldursbilinu 27-28 ára og voru algengustu nöfn: Ásdís, Baldur og María (stafrófsröð).

Dagurinn var semsagt Lao menningardagur fyrir okkur, ekkert opinbert. Þjóðarsafnið hafði til sýnis muni og upplýsingar frá tímum risaeðla til vorra daga. Margt áhugavert var þar að sjá en framsetningin þótti mér almennt frekar óspennandi og gengum við nokkuð greiðlega í gegnum nokkra salina, þó fegin að hafa kíkt.

Eftir safnið röltum við aðeins um götur höfuðstaðarins á rólegum nótum og fundum m.a. fallegt torg með stórum og gullfallegum gosbrunni í miðjunni. Rétt hjá þessu torgi er til húsa laóískur dans- og tónlistarhópur sem heldur daglega menningarsýningu, í takt við þema dagsins keyptum við okkur vitanlega miða.

Þegar inn var komið reyndumst við einu gestirnir, kannski skiljanlegt þar sem drekahátíðin er í fullum gangi og nóg af lífi úti um allan bæ. Fljótlega bættust þó tvær manneskjur í hópinn svo ekki var um algera einkasýningu að ræða.

Atriðin voru hverju öðru fallegra, safnið átti ekki séns í þetta menningarsýnishorn. Í fyrsta sýningarlið var sýndur dans sem túlkar gestgjafa að bjóða gesti velkomna, það tókst sannarlega, og í lok atriðisins fengum við fullar ilmandi lúkur af krónublöðum fallegra blóma.

Punkturinn yfir i-ið var svo þegar gullfalleg Laomær bauð mér upp í dans, sem ég vitanlega þáði, og myndarlegasti karldansarinn bauð Ásdísi í dans. Ásdís stóðst freistinguna og dokúmenteraði tignarlegan limaburð minn þegar ég sýndi og sannaði allt sem ég hafði ekki lært á meðan á sýningunni stóð.

Sýningunni mæli ég tvímælalaust með og hvet alla sem eiga leið um Vientiane að skella sér. Í ferðahandbókunum kallast hún Lao Traditional Show.

Engin ummæli: