Hér í Vientiane er allt að fyllast af fólki. Fyrsta kvöldið okkar í borginni var allt fullt af fólki, okkur til mikillar undrunar (Laos hefur verið frekar rólegt fram til þessa). Enn furðulegra þótti okkur að sjá að það voru aðallega heimamenn og asískir ferðamenn sem fylltu strætin sem er ansi óvanalegt, iðulega eru það aðrir bakpokaferðalangar sem maður rekur augun í.
Frá því við komum hefur heimamönnum og asískum ferðamönnum hins vegar farið fjölgandi á degi hverjum, og miðað við fjölda sölubása sem spretta nýir upp úr jörðinni á hverjum degi, var augljóst að eitthvað var í aðsigi. Nú höfum við fengið skýringu á fyrirbærinu, í vændum er nefnilega hátíð drekans hér á bæ.
Hátíð drekans virðist fela ýmislegt í sér: föstu munkanna er að ljúka og haldið er upp á endurkomu Búdda (hef aldrei heyrt af þeirri endurkomu fyrr en hér í Laos), upp úr Mekong skýst yfirnáttúrulegt ljós sem vísindamenn kunna enga skýringu á, aðeins er vitað að það gerist einu sinni á ári á hátíð drekans. Til að halda upp á þetta allt saman koma heimamenn og ferðamenn úr nágrannalöndunum til höfðuborgarinnar til að sýna sig og sjá aðra.
Það sem trekkir fólk ekki síður að borginni er róðrakeppnin sem fer fram á laugardaginn næsta. Þá er róið á stórum drekabátum sem, í þessum rituðum orðum, er verið að smíða út á Mekong. Þeir eru glæsileg sýn á kvöldin þegar kveikt hefur verið á ljósaseríunum sem einhver svo snilldarlega vafði utan um drekabátana.
Til að koma til móts við þann mikla fjölda sem hingað er mættur eru sölubásar á hverju strái. Verið er að selja fáránlega ódýr föt í öllum regnbogans litum, vörukynngar á hinum furðulegustu vörum eru í fullum gangi, kjöt á teini og armar af smokkfiskum grillast í rólegheitum, sojamjólk í fernum og gos í gleri fljóta um í bráðnu ísvatni, smástelpur ganga um og bjóða tyggjó pakka til sölu, önnur börn selja uppblásnar blöðrur.
Hér er hægt að fá sticky rice í bambushólkum, sígarettur og lottómiða, karamelíserað poppkorn, snakk og brjóstsykur, bananapönnukökur og djúsa á 1000 kip glasið. Í hofgarðinum er hoppukastali fyrir krakkana, sumir stíga á ferðavigtir sem spá fyrir manni, aðrir spila í lottó sem er svo vel græjað að hafa kúlur og sérlottóvél, blöðrukastið er að sjálfsögðu vinsælt sem og að henda tennisboltum í áldósir, svo bjóða munkarnir upp á blessun. Leikir, leikir, leikir....
Ekki má gleyma tónlistinni! Maður þarf að halda fyrir eyrun á göngugötunni, hún er svo hávær. Skemmtiatriðin á sviði eru í boði Beer Lao og þar er Lao popptónlist í hávegum höfð og poppdívur í Lao tísku (stuttum smekkbuxum) stíga á svið. Á horni hótelsins okkar er verið að selja geisladiska og til marks um það hefur tveimur risastórum og ógnvænlegum hátölurum verið komið fyrir og þrykkja þeir út með gríðarlátum þremur lögum aftur og aftur og aftur: Daddy Cool með Boney M, Brother Louie með Modern Talking og Lambada með Kaoma. Ég þakka bara fyrir að hafa sama smekk og þessir Laobúar, annars yrði sambúðin með háværu tónlistinni óbærileg. Í staðinn dilla ég mér við Lambada í þriðja hverju lagi og raula Brother Louie Louie Louie eða I'm crazy like a fool í öðru hverju lagi.
Dásamlegt, dásamlegt, dásamlegt...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli