miðvikudagur, 10. október 2007

Saffran og íslam

Hversu margar nýlegar bækur geta haft orðið saffran í titli sínum? Þessi spurning skaut upp kollinum þegar ég tók upp bókina Saffron Skies sem var til sölu í einu bókabúð Luang Prabang. Ég var á höttunum eftir metsölubók sem ég vissi að hefði nýlega komið út í íslenkri þýðingu, og í titli hennar var einmitt orðið saffran.

Ég skellti mér á Saffron Skies en strax eftir fyrstu kaflana fór ég að undra mig á því að þetta væri metsölubók. Ekkert merkilegt hér á ferðinni, engin stórbrotin saga, hrífandi myndmál eða ljóðrænn texti. Af einskærum bókaskorti las ég þó áfram enda kannski ekki um arfaslappa frásögn að ræða.

Nema hvað, bókin endar snarplega í miðri frásögn. Einhver hefur skipt út bakkápunni fyrir auglýsingu á íslömskum bókmenntum og kippt síðustu blaðsíðunum út. Ekki veit ég hvernig á því stendur. Þessi bakkápa er hins vegar ansi áhugaverð. Innan á bakkápunni er bókaauglýsing, nýjasta bók Ahmed Deedat, Muhammed the Greatest, er komin út. Efst á síðunni trónir tilvitnun í Dr. Joseph Adam Pearson:

People who worry that nuclear weaponry will one day fall in the hands of the Arabs fail to realise that the Islamic bomb has been dropped already. It fell the day Mohammed was born.

Utan á bakkápunni eru auglýstir 20 fríir bókatitlar, þar á meðal "50 000 Errors in the Bible?", "Christ in Islam", "Is the Bible God's Words?", "Crucifixion or Cruci-Fiction?", "The Muslim at Prayer" og "Way to the Qur'an". Með einu símtali til höfuðstöðva Islamic Propagation Centre International í Suður Afríku er hægt að tryggja sér eintak!

Til að setja punktinn yfir i-ið er Saffron skies alls ekki bókin sem ég hafði í huga! Ég var að rugla henni saman við bókina The Saffron Kitchen sem nýverið kom út í íslenskri þýðingu hjá JPV útgáfu undir heitinu Saffraneldhúsið. Enn skondnara er samt að eftir að hafa lesið rúmar 500 blaðsíður af bók sem mér þykir ekkert svo mikið koma til er ég samt alveg í mínus yfir að ná ekki endinum.

Engin ummæli: