Það er áhugavert að sjá hve Suðaustur Asíu þjóðirnar eru frábrugðnar hver annarri. Að sjálfsögðu er ekki um æpandi mun að ræða heldur frekar blæbrigði. Kambódíumenn eru ekkert öðruvísi en hin löndin að skera sig örlítið úr.
Hér er betl til að mynda mun sýnilegra en nokkurn tímann í Tælandi, Laos eða Víetnam. Börnin ganga um með útrétta lófa, bendandi á vatnsflöskuna manns eða jógúrtina svo maður á allt í einu erfitt með að kyngja. Hins vegar erum við mjög ströng, við gefum aldrei betlurum, það þarf þá eitthvað mikið að koma til. Þetta kann að hljóma svakalega kaldlynt en það er ekki ástæðan, við erum ekki sérlega kaldlynd að eðlisfari. Það er einfaldlega eina sem við sjáum í stöðunni, að gefa ekki betlurum en versla hins vegar við heimamenn sem meðvitað rífa sig upp úr eymdinni. Þannig keyptum við t.d. póstkort af handalausum manni sem rétti okkur spjald þar sem stóð að hann kysi frekar að vinna fyrir sér með sölu á bókum og kortum heldur en að betla. Og nú erum við búin að skrifa og senda þessi kort svo þeir sem fá vita hvaðan þau koma.
Börnin sem betla eru þau allra skítugustu sem ég hef séð síðan í Indlandi. Þau ganga um í óhreinum fötum og eru illa lyktandi. Þau eru send út að selja póstkort og glingur og eflaust sagt að koma ekki heim nema með einhvern pening. Það myndi í það minnsta útskýra þrautseigju þeirra því nei takk þýðir ekki nei takk. Þau væla í manni fram eftir öllu og það þarf sterkar taugar til að hlíða á. Þegar það rennur upp fyrir þeim að við erum engir viðskiptavinir ganga þau á brott með krækta arma. Stundum held ég að þau eigi engan að nema hvert annað.
Túk-túk bílstjórarnir hafa ekki undan að bjóða manni far, jafnvel þó maður sér aðeins að fara yfir götuna. Ma'am, you want tuk-tuk? Sir, where you go? Þeir sem ekki ná túri til rústanna hanga í vögnunum sínum í miðbænum og sæta færis eða liggja og slappa af. En þeir eru engu að síður vakandi, ekki vanmeta þá, því þó maður sitji á veitingastað með matinn fyrir framan sig og lítur í kringum sig eitt augnablik og lendir í því að ná augnasambandi við einn af bílstjórunum þá er hann samstundis sestur upp og farin að bjóða manni túk-túk. Já, auðvitað skal ég þiggja far í túk-túk, augnablik meðan ég fæ enchiladönu minni pakkað inn. Þeir eru skondnar skrúfur, það verður ekki skafið af þeim.
Það skemmtilegasta sem ég hef hingað til séð og fellur vel undir færsluna Fólkið í landinu eru konurnar sem ganga um í náttfötum að deginum til. Og ekki bara einhvern veginn náttfötum, heldur samstæðum. Flottasta flott í kventískunni hér í Kambódíu eru samstæð náttföt. Maður sér margar konur í náttbuxum en flottast þykir að eiga líka náttbol í stíl, það sýnir að viðkomandi hafi efni á slíkum fatnaði og tímann fyrir sér til að klæðast náttfötum að degi til. Í stuttu máli sagt þýða náttfötin ríkidæmi. Hvernig væri nú að taka upp á þessu heima á klaka? Bara moon boots og góð flónil náttföt í skammdegið og slabbið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli