Hver hefði trúða því, ég er með þrjár í takinu. Þrjár mismunandi þykkar á velli og klæddar ólíkum kápum en allar jafn fínar fyrir því. Þær krefjast að sjálfsögðu allar athygli sem ég get átt erfitt með að veita þeim, verandi á flakki og flandri, en ég get sjálfri mér um kennt að koma þessu bókabúri á laggirnar.
Sú fyrsta sem ég varð mér út um í búrið er The Greek Way eftir Edith Hamilton en hana fann ég á ólíklegasta stað, í stultukofagesthúsinu á Boliven hásléttunni. Þar sem um er að ræða kynningu á grískri heimspeki, og þar sem henni er ætlað að bjarga heimi í vanda, verður maður að sjálfsögðu að fara hægum skrefum yfir hana og gaumgæfa hvert horn. Svo ég les hana hæææægt. En ægilega þykir mér mikið til rökhusunarinnar koma, eins og ferskur andvari eftir póst-móderískt völundahús þar sem maður er flæktur í eigin heilafellingar áður en maður nær að vinna úr heilli hugsun.
Þeirri næstu, sem ég bætti í búrið, stal ég eiginlega frá Baldri og er sú athöfn afskaplega í takt við titil bókarinnar sem heitir svo fallega The Virtue of Selfishness og er eftir rithöfundinn og heimspekinginn Ayn Rand. Mér þykir ég hafa svo merkan grip í höndum að ég titra og skelf þegar ég handleik bókina og þessi ofurvirðing gerir mér hægara um vik að lesa mikið í einu. Ég þarf að smjatta svo óskaplega á því sem frú Rand hefur fram að færa, það er eins og ég sé með saltpillur í munninum.
Síðast en ekki síst eru það endurminningar Dr. Azar Nafisi í bókinni Reading Lolita in Tehran. Þar skrifa hún um tíma sinn sem prófessor við háskóla í Tehran í tíð Ayatollah Khohmeinis og lýsir átökunum milli ólíkra fylkinga í Íslamska lýðveldinu Íran. Ekki nóg með að sögusviðið sé áhugavert með meiru heldur eru nálgun hennar það líka, hún talar um tímann í gegnum skáldsögur og gerir því afskaplega góð skil.
Maður myndi halda að hér væru þrjár gjörólíkar bækur á ferðinni en svo vill til að oft hef ég hrasað um setningar og hugsun sem ég man eftir að hafa lesið í einni hinna. Þannig hafa þær frá fyrsta degi tengst órjúfanlegum böndum, allavega í mínum huga.
--------
UPPFÆRT: Þær eru orðnar fimm í bókabúrinu, og örugglega fleiri ef ég gefði mér tíma til að gramsa í bakpokanum hans Baldur. Allavega, ég bara varð að kaupa mér The Jane Austen book club og The Poisonwood Bible. Munið þið eftir Helgu Brögu í ostaauglýsingunni? Svo hagkvæmt! Þannig er ég með bækur, það er alltaf Svo hagkvæmt! að kaupa þær.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli