laugardagur, 10. nóvember 2007

Í lyftingasalnum

Á hótelinu okkar er pínkulítill lyftingasalur með tíu handlóðum, hlaupabraut, þrekhjóli, fjölnota æfingatæki og bekkpressu sem nýtist einnig í réttstöðuna. Salurinn er við eina af sundlaugum hótelsins svo útsýnið er afskaplega aðlaðandi, í þeirri merkingu að sundlaugarvatnið heillar (ekki þó gestirnir, því miður). Eina sem setja má út á staðsetninguna er að maður gengur gegnum lítinn bar við sundlaugina þar sem fólk snarlar stundum í skugganum frá sólinni. Þá gengur maður framhjá sveittum hamborgurum og frönskum með ketsjöp og finnst það ekki alveg vera rétti undirbúningurinn fyrir góða æfingu.

Við kíktum í litla salinn í dag og meðan Baldur tók út fjölnota tækið lagðist ég í bekkpressuna og fékk næstum kökk í hálsinn af geðshræringu: elsku bekkpressa, hvar hefurður verið fram til þessa? Með sömu stöng, en laus við geðhræringuna, gerði ég líka nokkrar réttstöður. Það var algjört nammi.

Talandi um nammi, eftir æfinguna fengum við okkur smá bita af því sem var til upp á herbergi. Inn í ísskáp kenndi ýmissa grasa, m.a. fundum við jackfruit, epli, papaya og pomelo. Við gæddum okkur líka á kasjúhnetum, þurrkuðum en djúsí apríkósum, smábanönum og hnetusmjöri. Öllum að óvörum þótti okkur það afskaplega ljúffengt.

Engin ummæli: