Í gær var haldið ættarmót fyrir fallegasta fólk í Pattaya á dönskum veitingastað. Fjöldi þátttakenda var fjórir; Pétur, Valeriya og að sjálfsögðu hnotskurnarritararnir. Fyrsta klukkutíma ættarmótsins var smjattað á ferðasögum og góðum mat, svona eins og gengur á fundum þeim sem kenndir eru við endur.
Eftir matinn voru svo haldnir ólympíuleikar í keilu og eftir harkalega útsláttarkeppni kom í ljós að allir voru svo góðir að enginn var sleginn út, allir náðu verðlaunasæti. Leikarnir enduðu svo á að vera ógiltir þar sem allir keppendur neituðu að fara í lyfjapróf, ásakanir um kínín- og talkúmnotkun liggja því enn í rafmögnuðu loftinu.
Í stuttu máli þá urðu fagnaðarfundir þegar við hittum þau skötuhjú, mikið var hlegið, etið og engu hef ég logið um keiluna, við vorum öll ógeðslega góð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli