miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Lúxus

Þá erum við komin í lúxuslífið í Tælandi. Við lögðu af stað eldsnemma frá Siem Reap og endurtókum leikinn frá því síðast þegar við tókum leigubíl að landamærunum og ég haltraði yfir til Tælands. Að þessu sinni gat ég gengið á báðum og að þessu sinni tókum við ekki rútuna til Bangkok heldur beint til Pattaya. Og þar erum við núna, á hinu fínasta lúxushóteli sem fær okkur dollara ferðalangana til að súpa hveljur yfir verðlaginu. Við erum orðnar algjörar fimm dollara sálir eftir Laos og Kambódíu!

Þegar við gengum inn að afgreiðslunni á Grand Jomtien Palace rak starfsfólkið upp stór augu. Það var ekki endilega útgangurinn á okkur sem var svo slæmur heldur voru það bakpokarnir sem þau ráku augun í. Það er nefnilega ákveðin yfirlýsing að ferðast með bakpoka: við ferðumst ódýrt. Til að tryggja að við vissum hvað við værum að fara út í endurtók daman í afgreiðslunni verðið á herberginu nokkrum sinnum, eins og við værum aumustu rónar að skrá okkur inn á Ritz hótel . Við brostum okkar blíðasta og létum það ekki á okkur fá því þó þetta sé ekkert fimm dollara hótel þá er þetta heldur ekkert Ritz hótel.

Kannski daman hafi vitað hve nísk við höfum verið í ferðinni, svo nísk að við höfum rifist við rickshaw bílstjóra í Indlandi út af 15 krónum. Kannski þess vegna sem hún hélt að við tímdum þessu ekki. En þá hefur hún bara ekki heyrt af plönum okkar um að dekra við okkur undir lok ferðarinnar til að tryggja að við snúum ekki heim eins og rónar sem komast ekki inn á Ritz.

Og þess vegna erum við núna í stóru herbergi á efstu hæð hótelsins, þeirri 12., með útsýni af góðu svölunum okkar yfir suður Pattaya, ströndina, flóann og flottu sundlaugina. Hér er líka lyftingasalur og gufa og morgunverðahlaðborð sem hæfir pattaralegri hirð. Það er hvítt lín á rúmum og stór og þykk handklæði til að þurrka sér í, baðkar inn á baði og sápur og freyðibað til að hella í það.

Mitt fyrsta verk var að leggja sjálfa mig í bleyti í blessuðu baðkarinu. Þar lá ég og marraði í hálfu kafi í góðan tíma og ímyndað mér að ég þryfi af mér skítinn sem ég varð mér úti um í Siem Reap. Sá bær er sko aldeilis mengaður og ekki hjálpar sturta mikið til því aðeins er hægt að baða sig upp úr köldu vatni (fimm dollara ferðalangar) og járnhlöðnu og súru í þokkabót. Maður angar eins og lifrapylsa eftir hvert bað.

En nú verður vonandi ekki meira um lifrapylsuböð. Nú ætlum við að næra okkur á sól og sundi og sjóböðum, fylla sálina upp í topp af hitabeltinu áður en heim er haldið. Til þess þarf lúxus.

Engin ummæli: