Pilates og spinning voru aðalréttir dagsins. Pétur og Valeriya buðu okkur að koma með sér í gymmið og fá smásmakk af æfingaprógrammi þeirra. Ég þáði boðið með þökkum enda alltaf til í að læra nýja hluti þegar kemur að þjálfunar- og heilsufræðum.
Þjálfari Péturs og Valeriyu, Mike, var hreint út sagt frábær og greinilegt að 40 ára reynsla í bransanum hefur eitthvað að segja. Pilates æfingarnar áttu ansi vel við mig enda hef ég nýtt mér ýmislegt úr þeim geira til að krydda æfingarútínurnar á ferðalaginu. Gestgjafarnir voru greinilega engir nýgræðlingar og var Pétur alla jafna notaður sem módel til að sýna hvernig ætti að gera hlutina rétt.
Beint eftir Pilates leikfimina þrömmuðum við í annan sal og hófst þá spinningtími. Ekki er neinu logið upp á þá íþrótt þegar sagt er að hún sé hörkupúl. Ég er greinilega ekki jafnmikill spinningmaður og held mig áfram við járnfáksreiðar utandyra en er þó þeirrar skoðunar að þetta sé góð leið til að styrkja hjarta, lungu og bræða smá lýsi.
Kaffistofa æfingastöðvarinnar kom í góðar þarfir eftir púlið og naut ég þess að lepja safa ungrar kókoshnetu í mig. Nú þegar reisan er komin svo langt á seinni helminginn verður allt sérasískt gotterí nefnilega að algerri nautn og mun ég vafalaust hugsa um kókoshnetusafann með nostalgíuglampa í augum innan fárra vikna, alltof fárra vikna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli