Nú erum við búin að vera rúma viku í Pattaya og gefist góður tími til að fylla sálina af sóli, sundi og almennri afslöppun. Við erum búin að púla á þrekhjólinu í litla lyftingasalnum og taka kraftgöngu á hlaupabrautinni, flatmaga við sundlaugarbakkann, taka góð vítamín og borða mikið af ávöxtum.
En það er ekki bara sálin sem er að fyllast, bakpokarnir okkar eru það líka! Við erum búin að álpast inn í nokkrar góðar kringlur, Royal Garden Plaza þar á meðal, en höfðum ekki hugsað okur að versla þar sem ætlunin var alltaf að gera innkaupin í Bangkok. En svo reyndist vera til þessi fallega úlpa í Bossini, þessar fínu flauelsbuxur í Lee, góðir skór fyrir norðlæga veðráttur í Clarks, töff pólóbolir og gallabuxur í Ten&Co og smart buxur og peysur í Esprit. Við þefuðum meira að segja uppi Yves Rocher verslun og stórglöddum starfsfólkið þar á bæ.
Nú þurfum við bara að kaupa væna tösku undir allar fínu flíkurnar sem hlaðist hafa upp í fína hótelherberginu okkar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli