þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Síðustu dagarnir í Asíu

Þá er kominn tími á að skrúfa frá tregafullum ekkasogum og harmagrát, við eigum bara einn dag eftir af Asíureisunni okkar! Hvernig gerðist þetta eiginlega? Tíminn líður, trúðu mér. Dagar okkar í Asíu eru taldir (harhar).

Við kvöddum Pétur og Valeriyu og Pattaya í gær eftir þrusuafmæli. Við erum orðin svo góð með okkur að við tókum leigara yfir til Bangkok, þó ekki fyrr en eftir ítarlega leit að besta boði (við erum ekki algjör). Okkar fyrsta verk í Bangkok, verandi búin að versla næstum allt sem við höfðum einsett okkur að kaupa, var að fara í bíó. Því miður var ekki úr miklu að moða í bíóhúsunum en við sáum þó Beowulf og Lions for Lambs og fengum nóg af bíópoppi. Ég er viss um að það hafi tíst í mér af gleði yfir að komast í bíó, við erum ekki búin að sjá kvikmynd síðan í september!

Deginum í dag vörðum við í verslunarmiðstöðinni Central World, nánar tiltekið í ZEN risaversluninni. Við týndumst inn í versluninni og ég verð svo ringluð inn í svona geimum að ég á erfitt með að taka einföldustu ákvarðanir. Þess vegna var svo sniðugt að taka sér matarpásu á FoodLoft og fá sér indverskt dahl (B) og Chiang Mai karrý með steiktum núðlum (seinustu forvöð að prófa eitthvað svo sérstækt).

Á leiðinni heim úr leigubílnum gengum við Khao San á enda og virtum í síðasta sinn götulífið fyrir okkur (sniff). Nú er bara eftir að pakka betur ofan í töskur, dífa tánni ofan í sundlaug og vonast eftir sól á morgun. Og kannski kíkja á Koddann. Og kveðja ávaxtavinkonu okkar hana Su. Og athuga veðrið í Stokkhólmi.

Engin ummæli: