Síðan á föstudag hefur ekki farið framhjá neinum hér á höfuðborgarsvæðinu að veðrið hefur heldur betur batnað. Úr rokþurrki og eilífðarstreng síðustu viku er komið ekta skandinavískt sumar. Útivist hefur því skipað veigamikinn sess. Ekkert smá sem svona blessun lyftir þjóðinni upp.
Leiðin virðist æ oftar liggja að sólarströnd Reykvíkinga og í dag skellti ég mér í þangað með Bigga vini og eftir sjósund, pott og spjall skildu leiðir. Mætti þá á svæðið Ásdís nokkur María og tjilluðum við samam á ströndinni drjúga stund en hjóluðum svo niður í bæ að kíkja á mannlífið sem reyndist með líflegasta móti.
Eftir að hafa reddað broddmjólk vikunnar í Kolaportinu lá leiðin á Babalú á Skólavörðustíg í krepu og kaffi. Þar frétti ég símleiðis frá afar áreiðanlegri fréttaveitu að húllumhæ væri planað í bænum í tilefni að sigri Íslands í söngvakeppninni í gær.
Þar sem við vorum í bænum skelltum við okkur auðvitaðð í partíið og skemmtum okkur konunglega, Páll Óskar kann sko að koma fólki í stuð. Sólbrún og sæl hjóluðum við svo heim og reiknast mér til að við skötuhjú höfum varið ígildi góðs vinnudags í sól og sumaryl, atvinnutsjokkóar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli