laugardagur, 3. mars 2012

Flutningar

Þá erum við flutt út litla kofanum okkar við sjóinn og komin í stórt 4ra herbergja hús sem líka liggur að sjónum. Hins vegar gengur sjórinn ekki undir húsið eins og hann gengur undir kofann svo ég á eflaust eftir að sakna þess að sofna við öldugjálfur. En það er í sjálfu sér óskaplegt lúxusvandamál.

Nýja húsið stendur á Hamnholmen, og er þetta eitt af verulega fáum staðarheitum á eyjunni. Hér eru nefnilega götur ekki nefndar, þannig að ég bý í húsi 18 á eyjunni Lovund. Fyndið í einfaldleika sínum.

Húsið er tiltölulega nýtt, 3-4 ára, með parketi á gólfi og flísum í hólf og gólf á baðherbergjunum. Rúmgóð eldhúsinnrétting, uppþvottavél og svo er bakaraofn líka, sem er algjör draumur eftir heilan vetur af því að hita brauð í þvottahúsinu! Í ofanálag þá keyptum við notaða þvottavél í gær svo ljúfa lífið virðist engum takmörkum háð.

Við deilum herlegheitunum með sænsku nágrönnunum sem nú geta víst ekki kallast nágrannar lengur heldur sambýlingar. Við hlökkum mikið til þess að sólin farin að skína því þá ætlum við að setjast út á risapallinn okkar sem liggur að sjónum og drekka eitthvað heitt úr bolla á meðan við öndum að okkur fersku sjávarloftinu. Og kannski gerum við nokkrar jógaæfingar til að halda mávunum á tánnum.

1 ummæli:

Tinnsi sagði...

Vá hvað þetta hljómar klikkaðslega vel!