Ég var að skoða gamlar færslur frá sumrinu okkar í Kaupmannahöfn 2006, þegar við unnum í garðyrkju á daginn og að ritgerðarskrifum á kvöldin. Það er þessum skrifum að þakka að ég man ýmsar sögur af mér og Tine og litlu ævintýrunum sem maður lendir í. Svo ég sannfærðist um að skrifa smá um vinnuna í laxinum, í nafni sagnaritunar.
Eftir átta mánuði af því að standa til skiptis á viktinni aðra vikuna og í sløye hallen hina vikuna var ég sett í opplæring hjá Janne í sorteringunni á mánudaginn var, en þar fer gæðaflokkun á laxinum fram. Ég
verð að viðurkenna að mér leist ekkert of vel á tilhugsunina því
ein af samstarfskonum mínum var búin að tjá mér að verst væri að standa í sorteringunni af
öllum stöðum fabrikkunnar. Mér var skapi næst að arka inn til
skiftleder og biðjast undan því að þurfa að standa í sorteringunni á
þeim forendum að það tæki því ekki að kenna mér trixin fyrir þessar 12 vikur sem ég á eftir af vinnu.
Ég gerði það hins vegar ekki
því ég var nógu spennt fyrir því að fá að gera eitthvað nýtt og svo lagði ég
hæfilegan trúnað og traust á orð Nataliu. Nú er ég búin að
sortera fisk síðan á mánudaginn og finnst það frábært! Tilbreytingin er
ansi kærkomin auk þess sem það kemur sér mjög vel að læra að flokka
fiskinn. Það er nefnilega að ýmsu að huga og þegar maður stendur á
viktinni er gott að vita hvort maður sé með rétt flokkaðan fisk í
kassanum fyrir framan sig eður ei.
Fiskurinn frá Nova
Sea er allra jafna 90-95% það sem við köllum superior fiskur, þ.e. fiskur sem er laus við
sár, melanin og vansköpun - hann er eins frískur og fallegur og lax
verður. Restin af fiskinum skiptist svo í flokkana ordinær, produksjon og feilskjær. Ef fiskurinn hefur minniháttar
sár eða ummerki um melanin (blóðflekkir sem koma til af bólusetningum) flokkum við hann sem ordinær. Einnig ef einhver hluti roðsins hefur misst gljáan vegna taps á hreistri (skjelltap). Þá má
fiskurinn heldur ekki vera of langur og mjór eða hafa krippu á bakinu og
hausinn verður að vera í heilu lagi. Ef hann kemur inn á borð til okkar hauslaus er hann sendur í þriðju kategoríuna sem er produksjon og það sama gildir um verstu tilfellin af sárum og melanin. Þá er fiskur sem hefur tekið út kynþroska einnig sendur í produksjon því þá hefur hann tekið á sig grænan lit, er kominn með langt snjáldur og hefur lést töluvert. Ef laxinn kemur
til okkar skorinn upp á bakinu eða að öðru leyti illa farinn úr Baader
vélunum sendum við hann í feilskjær.
Svo er það fjórði og versti flokkurinn sem er dauðasti fiskurinn. Ég vissi ekki að maður gæti verið
dauðari og dauðastur en ég er búin að komast að því að svo er. Stundum fáum við fisk sem hefur verið dauður í einhvern tíma og það fer ekki framhjá manni þegar slíkur fiskur lendir í höndunum á manni. Roðið er stamt viðkomu, áferð þess mött og liturinn glærhvítur. Þá eru augun einnig góður mælikvarði á hversu dauður fiskurinn er því í dauðustu fiskunum eru þau hvít og hvít.
Að sama skapi eru augun einnig fínn mælikvarði á líf. Þegar maður vinnur inn í slægingunni kemur laxinn stundum spriklandi eftir færibandinu og þegar maður stendur við innmatar og raðar fiski á færibandið sem matar Baader vélarnar vill maður helst ekki senda einn sprelllifandi í gegn. Þá þurfum við að rífa tálknin í sundur og henda fiskinum í þar til gert kar svo honum blæði út. Hins vegar er oft um taugakippi í dauðum fisk að ræða svo til að fá úr því skorið hvort fiskurinn er lífs eða liðinn skoðar maður augun vel. Ef þau eru alveg samsíða og horfa út til hliðanna er fiskurinn dauður en ef ekki, ég tala nú ekki um ef þau hreyfast enn í tóftunum, þá má fastlega gera ráð fyrir að fiskurinn sé lifandi.
Eftir átta tíma morgunvakt í dag eru 95 tonn af laxi komin í hús. Þar af má áætla að ég hafi
sorterað um fjórðung af þeim fiski svo við erum að tala um að ég
hafi farið í gegnum u.þ.b. 25 tonn af laxi í dag: handfjatlað hann, gripið í tálkn og sporð, snúið honum á báðar hliðar, skoðað frá snoppu til sporðs og grandskoðað inní. Jafnvel hreinsað smá blóð, smúlað og rifið út leifar af þörmum. Allt þetta á meðan ég hlusta á misgóða tónlist frá Radio Norge.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli