Þvílíkt veður! Og það á laugardegi! Maður lifandi!
Við lágum í sólbaði allan fyrripart dags, vorum fimm þegar mest lét, þ.e. við fjögur sem stöndum á tveimur fótum og svo kisan Hvítloppa. Við stelpurnar skelltum okkur í bikíni og drógum fram dínur og teppi til að liggja á. Ég útbjó engiferdrykk með hunangi og hakkaði appelsínur í smoothie til að ná fram enn frekari sumarstemmningu. Fór svo reglulega inn í hús til að hvíla kroppinn á sólinni eins og lög gera ráð fyrir.
Það eina sem kom okkur úr baðfötunum og af pallinum var nauðsynina að komast í búðina áður en hún lokaði klukkan þrjú. Í búðinni voru allir skælbrosandi á stuttbuxum og kjólum, komnir með sundbola- og broshrukkufar. Við rétt náðum næstseinasta pakkanum af maískólfum og seinasta pakkanum af romano salatblöndunni sem er venjulega löngu uppselt rétt fyrir lokun á laugardögum. Keyptum líka papríkur í þremur litum og risapoka af stórum sveppum. Vinur okkar Olle keypti sér lítið grill fyrir 50 NOK, dúndurkaup í annars dýrri búð.
Seinnipartinn var sólin farin af pallinum bakatil en framan við húsið naut enn sólar við og þangað komu góðir gestir og skelltu upp litlum grillum. Þetta voru sænsku vinnufélagarnir okkar þau Olle (vinur okkar frá Indlandi), David, Teresa og Peter, en öll búa þau steinsnar frá okkur, í litlu verkamannagámunum sem við Baldur neyddumst til að dvelja í fyrstu vikurnar okkar á eyjunni. Þau komu öll í midsommar skapi og sum vel rauð eftir sólbað dagsins.
Á grillin fóru m.a. marineraðir sveppir, laukur og papríkur, lax, maískólfar, kjúklingabringur, hamborgarar og marineruð svínalund. Meðlæti var ýmsu tagi en við Baldur bárum grillmatinn okkar fram með geggjaðri heimagerðir hvítlaukssósu og salati. Eftir matinn sátum við svo á pallinum fram eftir kvöldi og vissum ekkert hvað tímanum leið því sólin skein allan tímann sterkt framan í okkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli