laugardagur, 16. júní 2012

Litlu lömbin









Ég tók þessar myndir af litlu lömbunum fyrir akkúrat mánuði síðan. Kom heim af kvöldvakt uppúr tíu, hentist í sturtu og síðan í fötin og var farin út að mynda geggjað sólarlagið. Var úti fram yfir miðnætti, sat í mosanum og horfði á sjóndeildarhringinn og litadýrðina sem himinhvolfin voru með í sýningu.

Kvöld var hins vegar ekki bara um sólina og litina á himninum, heldur hitti ég tvær ær með lömbin sín. Þvert á væntingar mínar sýndu þær ekki hinn minnsta vott um styggð heldur horfðu pollrólegar á mig og leyfðu mér að smella af eins og mig lysti. Ég fékk meira að segja leyfi til að koma ansi nálægt þeim og ungviðinu án þess að uppi yrði eitthvert fjaðrafok.

Ekki nóg með það heldur urðu fagnaðarfundir þegar leiðir okkar lágu aftur saman. Ég hafði klöngrast upp á hól og villst af leið, fundið hvíta fjöður sem stóð upp á rönd í berjalynginu og vakti forvitni mína, en náði að lokum að koma mér aftur niður í Vassvika niður bratta hlíðina. Þar í fjörunni fyrir neðan höfðu ærnar komið sér fyrir og þegar þær urðu mín varar komu þær hlaupandi á móti mér með lömbin í eftirdragi. Vissi ekki alveg hvort mér ætti að standa saman eður ei svo ég stóð bara kyrr og beið þess sem verða vildi. En þær vildu bara koma og segja hæ, hvað ert'að gera?

Engin ummæli: