sunnudagur, 1. júlí 2012

Banoffie pie








Við héldum lítilsháttar og óformlegt kökuboð í gær í tilefni af því að síðasta helgin í sambúð okkar við Svíana var runnin upp. Við buðum Olle og David yfir, auk þess sem Andre bróðir Petru kíkti við. Alex bakaði hina sígildu sænsku kladdkaka á meðan ég henti í banoffie pie. Já, það var banoffie pie sem ég var að undirbúa þegar ég taldi upp leynileg innihaldsefni eins og banana og niðursoðna mjólk!

Banoffie pie, uppáhaldið mitt! Ég kynntist þessari dásamlegu böku á Indlandi af öllum stöðum. Við smökkuðum hana á veitingastaðnum Cool Breeze á Palolem strönd í Goa jólin 2006 og hallelúja, gáttir himna stóðu mér opnar. Síðan þá hef ég smakkað hana víða um Indland og einna best var hún á Cool Breeze og á Nick's Italian Kitchen í McLeod Ganj uppí Himalaya. Jammí jammí jamm!

Ástæðan fyrir því að ég valdi að útbúa banoffie pie fyrir óformlega kökuboðið okkar var ekki bara sú að þetta er besti eftirrétturinn sem fyrirfinnst, heldur er auðvelt að útbúa hann þar eð hann krefst engra sérstakra áhalda eins og hrærivélar. Hefði ég haft hrærivél við höndina hefði ég alveg getað hugsað mér að baka marengs og henda í kókosbollu-berjadessertinn sem Salome kynnti mig fyrir hér um árið því það fást kókosbollur í búðinni, ótrúlegt en satt! En sú dásemd bíður betri tíma.

Jæja, þá er komið að því sem allir bíða spenntir eftir: uppskriftinni. Áður en lengra er haldið vil ég samt vara við því að bakan er dísæt og því æskilegt að láta sér nægja litlar sneiðar svo sykursjokkið verði ekki of svakalegt!

Botninn:
100 g bráðið smjör
250 g digistive kex, mulið

Karamellan:
100 g smjör
100 g púðursykur
1 dós niðursoðin mjólk (397 g) (condensed milk)

Efsta lag:
4 litlir bananar
300 ml rjómi
súkkulaðispæni

Hvernig:
Mylja kexið, t.d. með því að stingja því í poka og berja með kökukefli. Bræða smjörið í skaftpotti og hella yfir mulið kexið, hræra vel saman. Verða sér úti um 20 cm lausbotna form, smyrja og síðan þjappa kexinu ofan í formið og upp með hliðum til að mynda kant. Inní ísskáp í allavega 10 mín.

Fyrir karamelluna þarf að bræða saman smjör og púðursykur saman á pönnu á lágum hita og hræra stöðugt í á meðan. Þegar sykurinn hefur leyst upp að fullu er niðursoðinni mjólkinni bætt út í og
hækkað undir pönnunni til að ná upp suðu hraðar. Leyfa blöndunni að sjóða í a.m.k. 1 mínútu og muna að hræra stöðugt í á meðan. Hella karamellunni yfir kexbotninn og kæla í ísskáp í a.m.k. 1 klst.

Varlega losa kökubotninn úr forminu og koma fyrir á fallegum kökudiski. Þeyta rjómann svo hann haldi vel formi, sneiða niður bananana og hræra helmingnum saman við rjómann. Smyrja bananarjómanum ofan á karamelluna, raða svo restinni af niðursneiddu banönunum yfir rjómann pent og fallega og að lokum strá súkkulaðispæni yfir.

Ó, svo gott! Muna að tannbursta vel á eftir og skokka upp Esjuna!

3 ummæli:

Erna sagði...

mmmmmmmmmm :)

Augabragð sagði...

NAMM! Vá hvað þessi kaka hljómar vel :D Þessa mun ég sko að prófa! Þ.e.a.s. ef ég get orðið mér út um niðursoðna mjólk hmmm...

Og já kókóbollusmarengsávaxtablandípoka er alltaf gott.

ásdís maría sagði...

Niðursoðin mjólk eða condensed milk fæst pottþétt í Hagkaupum :)