mánudagur, 2. júlí 2012
Verkligen trevlig överraskning
Hér eru Charlie og Baldur á góðri stund og svo eru þarna myndir af panna cotta eftirréttinum sem Jenny útbjó handa okkur.
En bíddu, hver eru Charlie og Jenny?
Já, góð spurning.
Svona var þetta: Við Baldur sátum í gær í sófanum og vorum á fullu að uppfylla skilyrði lazy sunnudags. Höfðu horft á nokkra Lost fyrr um daginn og borðað afganga af taco casserrole frá laugardeginum. Sunnudagur par excellance. Alex og Petra úti í fiskitúr og húsið út af fyrir okkur. Sunnudagur par excellance. Já, ég er bara svona að undirstrika.
Allt í einu sáum við útum svalahurðina tvo túrhesta nálgast. Við erum orðin öllu vön þegar kemur að norskum ferðamönnum, þeim þykir ekkert tiltökumál að þramma á pallinum okkar og jafnvel kíkja inn ef þeim svo sýnist, sjá hvort einhver sé heima og svona. Þessir tilteknu ferðamenn gerðu sig hins vegar aðeins of heimakæra með að koma nær og nær hurðinni og svo gerðu þeir sér lítið fyrir og bönkuðu upp á.
Nei, hættu nú alveg, hugsuðum við í kór.
En létum okkur hafa það að standa upp og athuga hvað fólkið vildi upp á dekk. Reyndust þetta vera mamma og systir Petru, komnar allaleið frá Lycksele í leyniheimsókn! Skælbrosandi og flissandi stóður þær á pallinum og spurðu um Petru, föðmuðu okkur svo og kysstu og drifu sig í heimsókn til bróður Petru.
Þær eru ekki einar á ferð því litli Charlie er með í för. Charlie er tysk mittelspitz og svo sætur og loðinn að mann langar að grafa andlitið ofan í feldinn hans og hafa hann sem lifandi ábreiðu. Hann er svartur með brún augu, svolítið geltinn en annars rólegur og þegar maður klappar honum hallar hann sér upp að manni og lygnir aftur augunum.
Þær mæðgur voru búnar að elda dýrindismáltíð handa okkur þegar við komum heim úr vinnunni í dag. Við átum öll á okkur gat og lögðumst svo á meltuna í sófunum og dottuðum og fórum í spurningaleiki. Létum svo bera í okkur panna cotta í eftirrétt og sumir fengu sér kaffi með.
Ekki amalegt að fá svona överraskning!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli