fimmtudagur, 26. júlí 2012

Rigning í göngutúrnum







Ég breytti út af vananum í göngutúr dagsins í dag og hlustaði á nýju Of Monsters And Men plötuna, My Head Is An Animal. Hlustaði reyndar á hana í heild sinni í fyrsta sinn í gær og varð að endurtaka leikinn. Mjög hrifin!

Það rigndi á mig í þessum næstsíðasta göngutúr um eyjuna. Þegar ég stóð í votu grasinu og tók myndir af gula og appelsínugula blóminu hér að ofan kom rúmlega sjötugt húsfrúin út og spurði mig hvort það gengi að taka myndir í svona veðri. Ég vildi meina að þar sem ég tæki yfirleitt alltaf myndir í þurru veðri væri það skemmtileg tilbreyting að taka myndir af regninu.

Þá leit hún til himins og dæsti og sagði svo að þetta hefði verið dårligt sommer, kalt og uppburðarlítið. Já, bara hreinlega versta sumar sem hún og maðurinn hennar hefðu nokkru sinni upplifað á Lovund.

Ég samsinnti því til að vera kurteis með því að kinka kolli og taka undir orð hennar, veldig kaldt, en í raun og sann þá hefur þetta sumar á Lovund verið eitt það besta í mínu lífi. Það þarf ekki að vera bongóblíða á meðan maður sér til himins, getur farið út á hverjum degi í labbitúrinn sinn, fengið að horfa á blómin og andað að sér graslyktinni.

Mikið sem ég á eftir að sakna göngutúranna minna á Lovund.

Engin ummæli: