föstudagur, 27. júlí 2012

Síðasti dagurinn á Lovund









Þá er síðasti dagurinn okkar á Lovund að kveldi kominn. Við kláruðum vinnudaginn með glæsibrag, þremur tímum fyrir vinnulok. Ég var í dálitlu tilfinningalegu uppnámi í byrjun dags, nýbúin að kveðja nágrannana okkar og fleira gott fólk á leiðinni í vinnuna. Nú er ég hins vegar aðeins sprækari og tilbúnari í ferðalagið sem framundan er.

Í morgun þegar ég vaknaði tók á móti mér glampandi sólskin og blíða. Fyrsti dagurinn okkar á eyjunni var einmitt með sama sniði og það var því viðeigandi að síðasti dagurinn tæki mið af því. Ég plataði Baldur með mér í göngutúr dagsins að þessu sinni og við tókum nokkrar myndir af leiðinni sem ég hef nú gengið síðustu mánuði.

Um hádegisbil kom vinnufélagi okkar David við til að kveðja okkur, á leiðinni í vinnuna náðum við svo að kveðja nokkra, inn í skiptiklefa við vaktaskiptin náðum við að kasta kveðju á þá sem við höfum kynnst af hinni vaktinni og svo eftir vinnu kom Olle stórvinur og varði kvöldinu með okkur og sambýlingunum.

Við slógum í óvænt teiti með því að fyrst bjóða upp á óáfengan bjór, þvínæst bökuðu sambýlingarnir amerískar pönnukökur og báru fram með hlynsírópi, eftir það borðuðum við síðbúinn kvöldverð sem voru hrærð egg og hýðisgrjón, og svo auðvitað var popp í desert. Olle hafði nefnilega smakkað popp steikt upp úr kókosolíu á Sri Lanka og þar sem við áttum poppmaís og þar sem við áttum jómfrúarkókosolíu lá þetta alveg ljóst fyrir. Nammi namm hvað þetta kom vel út!

Og núna rétt fyrir svefninn gengum við út að höfn til að horfa á sólarlagið og kveðju kisuna Hvítloppu. Á morgun verðum við komin til Íslands og hausinn á mér nær varla utan um þá staðreynd. Ég upplifi þyngsl fyrir hjartanu þegar ég hugsa til þess að kveðja eyjuna og vini okkar hér, og Noreg í heild sinni. Á sama tíma er ég þakklát fyrir að eiga nú ekki bara einn heimahaga heldur tvo. Mér heyrist allt stefna í bókaflokkinn Hvar skal ég höfði mínu halla?, dramatísk frásögn af ástum og örlögum eyjaskeggja.

Ha det Lovund og takk for alt. Det har vært helt greit.

Engin ummæli: