sunnudagur, 29. júlí 2012

Heim til Íslands

Smoothie
Untitled
Algjört nammi

Við erum lent! Og þvílíkar móttökur sem við fengum!

Ferðalagið gekk ljómandi vel þrátt fyrir lítinn svefn nóttina fyrir. Tókum hurtigbåten kl. 07.05 og fengum bíl sambýlinganna lánaðan til að koma okkur niður á bryggju með allt okkar hafurtask (fjórar stórar töskur og tvær minni). Veður var milt, það rigndi ljúflega og því kvöddum við Lovund ekki aðeins með tár í augum heldur einnig regndropum á nebbum.

Við fórum úr hurtigbåten í Sandnessjøen og tókum leigubíl upp á flugvöllinn Stokka en þaðan flugum við í lítilli rellu til Þrándheims. Frá Þrándheimi áttum við svo beint flug á Keflavíkurvöll. Í báðum flugum átti það við að lagt var af stað hálftíma fyrir áætlaðan brottfarartíma, svo stundvís vorum við nú öll þann daginn.

Við nutum þess að fljúga með Icelandair og horfðum á myndir og þætti og versluðum meira að segja um borð, keyptum iittala kertastjaka og sniðuga hvítlaukspressu. Ég horfði á Hunger Games og þó ég hafi ekki náð að klára get ég klárlega sagt að myndin er betri en bókin.

Þegar við komum síðan út af flugvellinum tóku pabbi og Hulda á móti okkur með iPad á lofti, brosandi eyrna á milli og föðmuðu okkur í bak og fyrir. Yndislega milt og fínt veður og kalt malt í gleri. Brunuðum í Garðabæinn og fengum dýrindissmoothie og edamame soja baunir sem Hulda setti saman. Þvílíkt sælgæti!

Leiðin lá síðan í Laugardalslaug, Kínahofið og YoYo ís. Við lognuðumst síðan út af eftir miðnætti, alveg búin á því eftir ferðalög dagsins og sváfum vært þessa fyrst nótt heima á Íslandi.

Engin ummæli: