Ó, mér þykir svo vænt um bækur.
Í dag fór ég að sækja litlu skáfrænkurnar mínar á skóla og leikskóla. Til að gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt saman stakk ég upp á því að við færum á bókasafnið í Kringlunni. Sú yngri var til í það og sagðist alveg geta gengið úr Hlíðunum. Sú eldi, sem les eins og vindurinn, var hins vegar ekki eins spennt. En hún lét sig samt hafa það.
Þær fundu sér strax sæti við borð í krakkahorninu og voru komnar með sitthvora bókina áður en ég vissi af. Svo heyrðist ekki múkk frá þeim, voru alveg uppteknar í öðrum heimi. Ég gat því lætt mér yfir í hilluna með ensku bókunum og dottið ofan í það sem ég elska að gera öðru hverju: bókasörfa. Skoða úrvalið, taka eina og eina bók fram, verða fyrir einhverjum áhrifum og taka bókina frá, ákveða að lesa hana.
Ég er með langan lista af bókum sem ég ætla að lesa en inn á milli verð ég að komast úr þeim viðjum og bara skoða að vild og láta hrífast af bókum sem ég hef aldrei heyrt um áður. Þannig hef ég líka lesið svo margar góðar bækur og kynnst áhugaverðum höfundum.
Bókaormurinn fann átta titla sem honum leyst vel á. Stelpurnar ráku upp stór augu þegar þær sáu mig rogast með bókastaflann í fanginu.
'Ætlarðu að lesa allar þessa bækur?' spurði sú yngri alveg hlessa. Fór svo yfir að DVD rekkanum og bað um að fá að hafa Kalla Blómkvist og félaga með sér heim.
Sem við og gerðum og hún sat límd yfir þessari leynilöggusögu í þær 82 mínútur sem í boði voru. Sú eldri vildi frekar vera inní herbergi að dansa við Justin Bieber og Nicki Minaj. OMG, ég er ekki að höndla að hún sé farin að hlusta á Bieberinn!
Hér eru svo þessar spennandi bækur sem ég tók, mikið sem ég hlakka til að detta ofan í þær:
The Alchemist's Daughter / Katharine McMahon
In the woods / Tana French
Emotionally weird / Kate Atkinson (frábær höfundur hér á ferðinni)
The good husband of Zebra Drive / Alexander McCall Smith (bráðfyndin sería)
The inheritance of loss / Kiran Desai
The seal wife / Kathryn Harrison
Ape house / Sara Gruen (sami höfundur og skrifaði Water for Elephants)
The outcast / Sadie Jones
Þess ber kannski að geta að þessi stafli bætist við staflann sem var fyrir og leit svona út:
The Tiger's Wife / Téa Obreht
Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry / Rachel Joyce
Leynda kvöldmáltíðin / Javier Sierra
Reading for the Plot / Peter Brooks
Kýr Stalíns / Sofi Oksanen
Það er eins og ég sé að búa mig undir að bókasöfn landsins loki í óákveðinn tíma. Svo er þó ekki, ég ætla að rífa þær í mig eins og vargur. Það kallast að fylla á tankinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli