Heiti færslunnar gefur til kynna að við séum enn að kafna í kössum - sem er að vissu leyti rétt - en við erum þó alltaf að bogra yfir þeim og draga upp úr þeim. Og það er ótrúlegasta dót sem kemur upp úr þessum kössum!
Þegar við stóðum í nákvámlega sömu sporum í júlí '08 á Hraunbrautinni, hafandi verið með eitthvað af dótið okkar í kössum í tvö ár og annað í þrjú ár, þá vorum við alltaf að taka fram muni sem við vorum búin að gleyma að við ættum eða hreinlega mundum ekkert eftir að hafa nokkurn tímann átt.
Ég bjóst því við að í þetta sinn væri maður aðeins betur með á nótunum, og að vissu leyti er það svo, en inn á milli eru þó hlutir og dótarí sem ég taldi mig hafa hent eða gefið. Aðallega upplifi ég þó mikla gleði við að taka upp úr kössunum og finnst ógurlega gott að vera umkringd dótinu mínu.
Og hvaða ályktanir má draga af því? Ég fór alla leið til Indlands (aftur) og lærði jóga og hugleiðslu en í staðinn fyrir að læra að aftengjast dótinu mínu varð ég enn háðari því. Ég er ekkert ósátt við það.
Helgina notuðum við síðan til að koma betra skikki á hlutina:
Ruddum öllum kössum út úr svefnherberginu og merktum í huganum við það sem semi tékk;
ruddum kössunum inn í stofu og skiptum þeim í tvo flokka - annar má vera en hinn skal fara upp í geymslu hjá pabba;
gengum frá kössum sem eiga að fara upp í Garðabæ og teipuðum þá fram og til baka;
plötuðum pabba til að koma og sækja þá;
hann plataði okkur í bíó.
Eftir bíó endurröðuðum við síðan sófunum í stofunni og komum þessum níu kössum sem eftir eru snyrtilega fyrir upp við einn vegginn.
Ah, gátum andað léttar því nú hefur stofan aldrei verið fínni. Ég held ég gæti bara alveg vanist því að hafa þessa kassa þarna, hugsanlega er það auðveldara en að taka upp úr þeim. Veit samt ekki alveg hvort það sé félagslega samþykkt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli