fimmtudagur, 27. september 2012

Miðnæturhringur


Í gær náði ég ekki að fara í göngutúrinn minn. Þóttist vera upptekin við annað og merkilegra en svo kemur alltaf í ljós að það er ekkert merkilegra eða meira áríðandi en að fara út og hreyfa sig.

Ég sá því fram á að fara út að ganga um kvöldið, í myrkrinu, og leyst ekki of vel á að gera það ein. Svo ég stakk upp á því við Baldur þegar hann kom heim upp úr hálf ellefu að við færum í góðan göngutúr. Hann var meira en lítið til í það. Mikið er ég heppin að eiga mann sem er alltaf til í eitthvað svona!

Við gengum framhjá Hlemmi og upp Laugaveginn og fórum niður hjá Nóatúni í Nóatúni og inn Miðtúnið. Þar bjó ég í nokkur ár sem lítið dýr og var sátt og sæl. Þá var rólóvöllur í enda götunnar og risaíþróttavöllur, Ármannsvöllurinn. Nú hefur þessu verið rutt burt og í staðinn komnar blokkir. Það er ekki alveg sami sjarminn yfir þeim eins og róló og stórum velli til að  hlaupa á og leika.

Við gengum inn í Laugardalinn og um Teigana. Nú er laufið víðast hvar búið að skipta um lit og ég fékk augnabliksáhyggjur af því að ég næði ekki að fara út með myndavélina í tæka tíð og mynda haustið. En ég virðist enn hafa smá tíma til stefnu, vona bara að það komi ekki stormur í millitíðinni og hrifsi til sín öll laufin á greinunum.

Ég hafði hugsað mér að ganga inn eftir tjaldstæðinu í Laugardal og í gegnum Grasagarðinn en tjaldstæðið grúfði sig svo í myrkri að við hefðum þurft að hafa ennisluktir eða vasaljós með í för. Svo við hættum við það og fórum í staðinn Laugarásveginn.

Það voru ekki margir á ferli svona seint um kvöld. Við námum staðar fyrir utan Beco ljósmyndavöruverslunina á Langholtsvegi og skoðuðum þrífætur og myndavélatöskur í gegnum glerið. Á veggnum andspænis glugganum var stór klukka sem var fimm í tólf. Umferðin var líka alveg í takt við þennan tíma sólarhrings, þ.e.a.s. engin, og þögnin á götunum eftir því. Í samanburði við að labba meðfram Sæbrautinni eftir hádegi þá var þessi ganga svolítið eins og upplifunin hans Palla af því að vera einn í heiminum.

Frá Háaleitisbrautinni gengum við í gegnum Vogana og þaðan yfir í Gerðin. Þarna taldi ég mig vera að sjá sumar götur í fyrsta sinn, eða kannski að borgin og götur hennar séu óþekkjanlegar svona í næturmyrkrinu. Við tókum allavega eftir því hvað hún er falleg svona í rökkrinu, bílarnir sofandi í sínum stæðum, húsin hljóð og lamparnir lýsandi út í nóttina.

Þegar við vorum komin upp úr Fossvogsdalnum og komin að Fossvoginum helltist yfir mig söknuðum eftir Hraunbrautinni. Við hjóluðum svo oft Fossvogsdalinn á haustin og hluta af mér fannst eins og við værum á heimleið í Kópavoginn.

Á leiðinni inn eftir Fossvoginum sjálfum mættum við manni sem á fornu máli innti eftir því hvort við ættum eldfæri til að lána honum. 'Nei, ekki búum við svo vel.'

Þegar tók að glitta í Valsheimilið fann ég að ég var orðin vel þreytt eftir gönguna, auk þess sem langt var liðið inní nóttina. Þegar við svo staðnæmdumst fyrir utan Snorrabrautina kom líka í ljós að við höfðum gengið rúma 12 kílómetra á tveimur tímum.

Þetta var góður hringur og ég ætla að fara hann aftur fljótlega, en næst kannski að deginum til, vera svolítið flippuð.

Engin ummæli: