Þessa fyrstu daga á nýja heimilinu hefur okkur lukkast að:
- kaupa þvottagrind
- koma hinni fornu Eumeniu þvottavél sem fylgir íbúðinni í gang, og í beinu framhaldi af því:
- nota þvottagrind
- taka upp úr fáránlega fáum kössum
- lifa af í allri þessari óreiðu
- elda ítalska súpu
- fara í Sundhöllina sem ég hef ekki heimsótt í allavega áratug
- fá okkur flöbbur á hverfisbúllunni, þ.e. Devitos
Þess utan þá átti ég svona glamúr móment þegar ég tók upp úr einum kassanum leðurstígvélin góðu frá Kaupmannahöfn. Ég tók andköf þegar ég fiskaði þau upp úr kassanum, hafandi gleymt því hve glæsileg þau eru.
Að sama skapi var ægilega skemmtilegt að fara í gegnum kassann með sparifötunum, draga fram kjóla og kápur, jakka og belti, óa og æja, strjúka og stara. Ég hef ekki klæðst spariklæðnaði í tvö ár og ég get alveg sagt eins og er að ég hef saknað þess. Maður þolir bara svo og svo mikið af því að nota sömu fötin við hin ýmsu tækifæri, ímyndunaraflinu eru einhverjar takmarkanir settar sem og flíkunum.
Það er enn allt í kössum og ég er svona hægt og róleg að komast að því að við getum bara tekið svo og svo mikið upp úr kössum áður en allar hirslur fyllast. "Allar hirslur" vísar til eldhússkápanna þar eð það eru einu hirslurnar í íbúðinni. Eins og stendur eru sparifötin á herðatrjám og hanga uppá skáp og á gardínustönginni inní herbergi. Okkur vantar tilfinnanlega einhverja slá eða skáp inní herbergi, en þetta er fín millibilslausn.
Og svo fór ég í góðan göngutúr í dag, rúntaði með Victor Hugo í eyrunum niður á Granda til mömmu og dró hana síðan með mér í Byko og allaleið til baka upp á Snorrabraut. Í heiðríkju og sólgleði. Að fá mömmu í heimsókn var kærkomið spark í rassinn og varð til þess að hlutum var komið fyrir á sína staði svo hægt væri að athafna sig. Það er allt í drasli og eigum við ekki bara að segja að ég sái nú fram úr þessu? Eða er það eintóm bjartsýni?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli