Hjálp, við erum að drukkna í kössum!
Við fluttum semsé inn í gær og fengum aðstoð frá pabba og lánsbíl frá Pétri afa Baldurs. Við fórum langt með að tæma geymsluna í gær og ég giska á að helmingurinn af kössunum hafi endað uppi á Snorrabraut, þ.e. einhversstaðar á bilinu 20-30 kassar. Þar að auki var þarna freelance kommóða, bastkarfa og lítil eining á hjólum sem var dregið hingað upp á aðra hæð. Þessir station bílar rúma allt!
Við urðum að hafa hraðar hendur því geymslurýminu lokar klukkan þrjú á laugardögum. Þá kom góður undirbúningur að góðum notum, og fór þetta nokkurn veginn svona fram:
Pabbi: Kassi 31?
Ég (rýni í útprentaðan listann): Upp á Snorrabraut!
Baldur: En kassi 12?
Ég (fletti á næstu síðu og rýni): Áfram í geymslu.
(ad infinitum)
Einhver myndi kannski benda á að þarna hafi ég fengið ansi þægilegt hlutverk sem listarýnir og það er líka alveg rétt, ég fékk eins og maður segir the long end of the stick.
Við náðum þó að því sem næst tæma geymsluna og það litla sem lafði var klárað í dag. Síðan lokuðum við og læstum geymslunni og skiluðum lyklunum. Og hún sem er búin að passa dótið okkar í tvö ár, vel gert kæra geymsla.
Nú er um að gera að ráðast á þessa kassa og sjá hvort maður kannist eitthvað við dótið sem kemur upp úr þeim!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli