laugardagur, 15. september 2012

Reykir

Ég fór í dag í smá bæjarferð með pabba og Huldu. Það er alveg ferlega gaman að fara í smá ferð á virkum degi, þá tístir alveg í mér af kæti.

Við keyrðum austur fyrir fjall með viðkomu í Litlu kaffistofunni. Hugmyndin var að fara Þrengslin og tína bláber einhversstaðar á leiðinni, einhversstaðar utan við Þorlákshöfn. Pabbi hafði farið með vini sínum Óla um árið og þá höfðu þeir rambað á algjört gnóttarlyng, sem ég held að hann hafi viljað finna aftur. Einu minningar sem ég á að því að fara í berjamó utan við Þorlákshöfn er að einn berjadallur týndist og mér fannst það stórmerkilegt (hvernig getur eitthvað horfið?)

Við keyrðum og keyrðum og reyndum að finna besta staðinn, en játuðum okkur svo sigruð og fórum út þar sem líklegast væri eitthvað um ber. Það rigndi mjúklega á okkur en nóg þó til að gera okkur erfitt um vik með að tína bláberin. Krækiberin voru aftur á móti móttækilegri fyrir því að vera plokkuð af lynginu og dempt ofan í hvítan plastdall. Bláberin sprungu bara í höndunum á manni.

Úr berjamó fórum við svo í heimsókn til foreldra Huldu. Þau eiga huggulegan bústað á Reykjum og þar er líka æðislegur heitur pottur sem þau steyptu sjálf fyrir rúmum þrjátíu árum. Þarna á Reykjum er nefnilega hitaveita og alveg nóg af heitu vatni. Dásamlegt alveg að fara í heitan pott í rigningu, það er eiginlega það skynsamlegast sem maður getur gert þegar það rignir! Svo má nú segja að útsýnið yfir rjúkandi hveri hafi alveg toppað þetta fyrir mig því þessir gufustrókar segja svo mikla sögu um landið okkar og möguleikana hér.

Eftir bað í pottinum fengum við nýbakaðar vöfflur með heimagerðri bláberjasultu. Svo vorum við leyst út með nýbökuðu brauði og sitthvorri krukkunni af bláberjasultu. Ekki amalegt að byrja búskap með nýtt brauð og sultu í farteskinu. Á morgun er nefnilega flutningsdagur og í dag er sambúðarafmæli okkar Baldurs.

Engin ummæli: