miðvikudagur, 31. október 2012

Piparmyntusúkkulaðibitar


Þá er það komið á hreint, vetur er genginn í garð. Brrrr! Það er reyndar ekki beinlínis vetrarlegt um að litast en það var ansi kalt í lofti í gær og svo blés svo ferlega að ég hélt ég myndi fjúka af hjólinu mínu þegar ég hjólaði meðfram Sæbrautinni. Eitthvað af börnunum hennar Sandy að leika lausum hala dettur mér í hug.

Þegar ég kom heim eftir kaldan hjólatúrinn og var búin að sitja og orna mér við fartölvuna fór mig að langa að gera eitthvað sneddí. Eins og til dæmis að útbúa eitthvað smotterí sem væri sætt í munn.

Ég er mjög hrifin af piparmyntu og hvítu súkkulaði og viti menn, ég datt niður á einfalda og kjút uppskift. Ég fæ mér nefnilega oft einn eða tvo mola af suðusúkkulaði þegar sætindalöngunin bankar upp á, og hér er suðusúkkulaðið klassað upp, einskonar heimalagað Pipp.

Hvað:
200 g suðusúkkulaði eða e-ð gott dökkt súkkulaði að eigin vali
100 g hvítt súkkulaði
8-10 dropar af piparmyntudropum
grænn matarlitur

Hvernig:
Bræddu súkkulaðið yfir vatnsbaði og hrærðu piparmyntudropunum saman við. Taktu fram sléttbotna og ferkantað form, smelltu bökunarpappír í botninn og helltu svo helmingnum af súkkulaðinu ofan á og dreifðu úr því svo það myndi ferning. Inn í ísskáp í 5-10 mín. Hér má líka styðjast við skemmtileg konfektform ef þau eru til í stað þess að dreifa úr súkkulaðinu á plötu.

Næst skaltu bræða hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og bæta smá af grænum matarlit við. Hér gildir að fara hægt í sakirnar, frekar minna en meira og sjá hvernig útkoman er. Nú er græna súkkulaðinu hellt yfir dökka súkkulaðið og dreift yfir súkkulaðiferninginn. Inn í ísskáp í 5-10 mín og þá er seinni helmingi súkkulaðsins hellt yfir og sett inn í ísskáp í 1 klst.

Taka út úr ísskápnum og skera í skemmtilega bita. Njóta þess svo að eiga molana og fá sér einn og einn við tækifæri. Allt er gott í hófi!

 




þriðjudagur, 30. október 2012

Fullt tungl

Fullt tungl
 
Tunglið og kirkjugarðurinn
 
Fullt tungl
 
Tunglið
 
Full Moon and Little Frieda
A cool small evening shrunk to a dog bark and the clank of a bucket -
And you listening.
A spider's web, tense for the dew's touch.
A pail lifted, still and brimming - mirror
To tempt a first star to a tremor.

Cows are going home in the lane there, looping the hedges with their warm
wreaths of breath -
A dark river of blood, many boulders,
Balancing unspilled milk.
'Moon!' you cry suddenly, 'Moon! Moon!'

The moon has stepped back like an artist gazing amazed at a work
That points at him amazed.
 
Ted Hughes

sunnudagur, 28. október 2012

Innblástur vikunnar

Eru sunnudagar ekki kjörnir í innblástur og upplyftingu andans?

Það finnst mér!

Hér að neðan eru nokkur hugvíkkandi sjónarhorn, frískandi eins og kalt sjávarlöður.








miðvikudagur, 24. október 2012

S K E N K U R

Ég er svo ánægð með að vera komin með heimili og setja tappann (í bili) í sjálfskipaða sígaunaflakkið að ef ég gæti myndi ég safna öllu fína dótinu mínu saman í gryfju og stinga mér svo ofan í af stóru stökkbretti, og ganga þar í spor ekki ómerkari andar en Jóakims. Ég held það sé meira að segja skemmtilegra að synda í mínu dóti en gullpeningum, en hvað veit ég svo sem um það?

Hér eru nokkrar myndir af stofunni okkar úr albúminu {Heima}.

Ég kynni til sögunnar skenkurinn nýja og blómin nýju (velkomin!) og hér eru svo helstu íbúar skenksins. Ég er að tala um

♡ tupilak sem ég fékk í Kulusuk
♡ Kofann í rjóðrinu, olía á striga eftir Baldur 2002
♡ marmarafíl frá Mamallapuram
♡ paradísarfugl frá Mexíkó
♡ fjöður frá Frakklandi
♡ teikningar Gaelle Boissonnard
♡ múmínglös og ástarbolla frá Finnlandi
♡ ævintýradisk keyptan í Þýskalandi á 9. áratugnum
♡ fífil frá HekluÍslandi
♡ fílaglös úr Ikea
♡ kínverskan teketill fenginn í Peking á einni virtustu testofu Kína
♡ og iittala baby!

Er einhver þarna úti sem er álíka ánægður með fallegu munina sína?

Blóm!
Skenkurinn
Tupilak frá Kulusuk
Skenkurinn
Blóm
Kofinn í rjóðrinu

Marmarafíll frá Mamallapuram

Teikning frá Mexíkó

Fjöður frá Frakklandi

Teikning Gaelle Boissonnard

Stellin

Múmínvestri

Ævintýradiskur

Múmínást

Fífill frá Heklu

Fílaglös

Kínverskur teketill

iittala

mánudagur, 22. október 2012

Pönnukökur

 
Það er fátt eins viðeigandi á sunnudagskvöldi en að skella í pönnsur. Sérstaklega þegar maður er búinn með sunnudagsbíltúrinn og var svo þjóðlegur að kíkja á Þingvelli! Þá bara verður maður að fá rjómapönnukökur, lögin eru bara svona.
 
Þessa uppskrift fékk ég frá mömmu minni sem fékk hana frá tengdamóður sinni sem var engin önnur en Rut amma mín. Hér hef ég aðeins poppað hana upp í nútímalegra og hollara horf, skipt út hveiti og sykri fyrir spelt og agave. Síðan má meira að segja skipta út smjöri fyrir kókosolíu en það hef ég reyndar ekki prófað. Þá má einnig næringarbæta pönnsurnar með því að hafa helming spelt magnsins úr grófu spelti, sem er eitthvað sem ég ætla að prófa næst.
 
Þetta var í fyrsta sinn sem ég bakaði þessar pönnsur úr spelti og það kom mjög vel út. Ég gerði helminginn að uppskriftinni hér að neðan og notaði þá 2 egg og 3 dl mjólk.
 
Pönnsur, 25 stk

5 dl fínmalað spelt
1/2 tsk salt
1 tsk vínsteinslyftiduft
3-4 egg
6-7 dl mjólk
50 g smjör
2 tsk agave sýróp
2 tsk vanillu- eða sítrónudropar

Bræða smjörið á pönnukökupönnunni og taka svo af hellunni til að kólna. Sigta speltið ofan í skál og bæta salti og vínsteinslyftidufti saman við, hræra saman. Bæta nú við helmingnum af eggjum og mjólk og hræra vel saman við þurrefnin, bæta síðan restinni við og hræra þar til deigið er kekkjalaust. Að lokum hrærum við út í smjörinu, agave sýrópinu og vanilludropunum. Og þá er bara eftir að steikja kökurnar á pönnunni og raða snyrtilega í stafla.

Við borðuðum okkar sunnudagspönnsur með bláberjasultu og þeyttum rjóma. Prófuðum líka eina með hlynsýrópi og sítrónusafa, en hlynsýrópið er eiginlega of bragðsterkt fyrir það kombó (betra með strásykri og sítrónu).

Hér er svo skref fyrir skref  hvernig njóta skal rjómapönnuköku hvaða daga vikunnar sem er:

1. Hellið lífrænni mjólk í uppáhaldsglasið ykkar.
 


 
2. Smyrjið pönnukökuna með bláberjasultu og dreifið úr rjómaslettu yfir einn fjórðung pönnsunnar.
 



3. Brjótið pönnukökuna saman í fernt svo hún myndi lítið og búttað umslag.
 

 
 
4. Notið skeið, gaffal eða fingurna til næla ykkur í fyrsta bitann, stingið honum upp í munninn, tyggið og njótið. Skolið svo niður með mjólkursopa!
 

sunnudagur, 21. október 2012

Þingvellir

Sunnudagsbíltúr með Baldri og Pétri afa hans færði okkur til Hveragerðis snemma morguns. Vorum mætt utan við sundlaugina í Laugaskarði rétt fyrir opnun og vorum því með þeim fyrstu ofan í. Að þessu sinni bættust köld böð við heita pottinn og gufuna og við vorum eiginlega öll sammála um að þessi köldu böð væru að gera gæfumuninn. Sjaldan sem ég hef verið eins frísk og létt á mér eins og eftir langa og góða ferð í gufuna og síðan hopp ofan í ker fullu af ísköldu vatni. Já!

Maturinn á heilsuhælinu í hádeginu var fínn og svo var sveskjugrautur með rjómablandi í eftirrétt. Ég kom sjálfri mér á óvart með því að fá mér sveskjugraut, svona er maður orðinn frjálslyndur í seinni tíð.

Eftir mat voru strákarnir kaffiþyrstir og þar sem dagurinn var svo bjartur og vítt til allra átta, fannst okkur kjörið að gera okkur svolitla ferð eftir kaffinu. Byrjuðum á því að athuga Þrastalund og komum þar að læstum kofanum. Keyrðum þá sem leið lá yfir á Minni Borgir og þaðan yfir í Reykholt.

Útsýnið á heiðríkum og björtum degi er engu líkt í þessum landshluta. Sérstaklega var ég hugfangin af Heklu sem stóð svo reisuleg og hvít upp úr landinu. Þá voru Tindfjöll einni mikið augnayndi, alhvítir tindar og hvassir að sjá.

Við áðum á Café Mika í Reykholti þar sem drengirnir fengu langþráðan espresso bolla. Þeir vildu nú endilega að ég fengi mér eitthvað, eplaköku, te, konfektmola?

Úr Reykholti keyrðum við síðan yfir á Þingvöll til að athuga hvort haustlitirnir væru enn á sínum stað. Þar stoppuðum við fyrst við Vatnsvik sem minnti okkur Baldur mjög á Vassvika á Lovund en þangað gengum við oft á kvöldin eftir vinnu. Í þessu tilviki eru Vatnsvik sambærileg við munnvik og ekki skal ruglast á vik og vík!

Frá Vatnsvikum var greið sýn yfir Þingvallavatn og allar spegilmyndir þess, og svo risu stórir, feitir gufubólstrar upp frá Nesjavöllum og gáfu til kynna öflin í landinu.

Við keyrðum síðan nær hjarta Þingvalla og gerðum okkur gönguferð upp að Lögbergi. Stöldruðum yfir Flosagjá og Öxará til að taka inn vellina. Svo vildi Baldur endilega að við kíktum á Drekkingahyl, og ég held að við Pétur höfum verið svolítið uggandi um hag okkar í ljósi þess hve fast hann sótti þetta. En okkur varð sem betur fer ekki meint af því að kíkja með Baldri að Drekkingahyl.

Þingvellir voru svalir og fallegir og við urðum að koma við á gestastofunni fyrir síðasta kaffisopann áður en lagt yrði í hann yfir Mosfellsheiði.

Það sem mér er efst í huga eftir svona yndislega ferð um landið er þakklæti og sterk upplifun af forréttindum. Að hafa hreinan og fallegan þjóðgarð nánast í bakgarðinum og geta heimsótt hann með léttum leik á sunnudagseftirmiðdegi er ekkert annað en forréttindi.

Rebelinn var ekki með í för að þessu sinni en Sony vélin gerði Þingvöllum góð skil, eins og sjá má í albúminu.

Vatnsvik
 
Sprelligosar
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Afi og afabarn
 
Gull og gersemi í Flosagjá
 
Bærinn og hraunið
 
Kúreki
 
Öxará