Þá er það komið á hreint, vetur er genginn í garð. Brrrr! Það er reyndar ekki beinlínis vetrarlegt um að litast en það var ansi kalt í lofti í gær og svo blés svo ferlega að ég hélt ég myndi fjúka af hjólinu mínu þegar ég hjólaði meðfram Sæbrautinni. Eitthvað af börnunum hennar Sandy að leika lausum hala dettur mér í hug.
Þegar ég kom heim eftir kaldan hjólatúrinn og var búin að sitja og orna mér við fartölvuna fór mig að langa að gera eitthvað sneddí. Eins og til dæmis að útbúa eitthvað smotterí sem væri sætt í munn.
Ég er mjög hrifin af piparmyntu og hvítu súkkulaði og viti menn, ég datt niður á einfalda og kjút uppskift. Ég fæ mér nefnilega oft einn eða tvo mola af suðusúkkulaði þegar sætindalöngunin bankar upp á, og hér er suðusúkkulaðið klassað upp, einskonar heimalagað Pipp.
Hvað:
200 g suðusúkkulaði eða e-ð gott dökkt súkkulaði að eigin vali
100 g hvítt súkkulaði
8-10 dropar af piparmyntudropum
grænn matarlitur
Hvernig:
Bræddu súkkulaðið yfir vatnsbaði og hrærðu piparmyntudropunum saman við. Taktu fram sléttbotna og ferkantað form, smelltu bökunarpappír í botninn og helltu svo helmingnum af súkkulaðinu ofan á og dreifðu úr því svo það myndi ferning. Inn í ísskáp í 5-10 mín. Hér má líka styðjast við skemmtileg konfektform ef þau eru til í stað þess að dreifa úr súkkulaðinu á plötu.
Næst skaltu bræða hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og bæta smá af grænum matarlit við. Hér gildir að fara hægt í sakirnar, frekar minna en meira og sjá hvernig útkoman er. Nú er græna súkkulaðinu hellt yfir dökka súkkulaðið og dreift yfir súkkulaðiferninginn. Inn í ísskáp í 5-10 mín og þá er seinni helmingi súkkulaðsins hellt yfir og sett inn í ísskáp í 1 klst.
Taka út úr ísskápnum og skera í skemmtilega bita. Njóta þess svo að eiga molana og fá sér einn og einn við tækifæri. Allt er gott í hófi!