sunnudagur, 21. október 2012

Þingvellir

Sunnudagsbíltúr með Baldri og Pétri afa hans færði okkur til Hveragerðis snemma morguns. Vorum mætt utan við sundlaugina í Laugaskarði rétt fyrir opnun og vorum því með þeim fyrstu ofan í. Að þessu sinni bættust köld böð við heita pottinn og gufuna og við vorum eiginlega öll sammála um að þessi köldu böð væru að gera gæfumuninn. Sjaldan sem ég hef verið eins frísk og létt á mér eins og eftir langa og góða ferð í gufuna og síðan hopp ofan í ker fullu af ísköldu vatni. Já!

Maturinn á heilsuhælinu í hádeginu var fínn og svo var sveskjugrautur með rjómablandi í eftirrétt. Ég kom sjálfri mér á óvart með því að fá mér sveskjugraut, svona er maður orðinn frjálslyndur í seinni tíð.

Eftir mat voru strákarnir kaffiþyrstir og þar sem dagurinn var svo bjartur og vítt til allra átta, fannst okkur kjörið að gera okkur svolitla ferð eftir kaffinu. Byrjuðum á því að athuga Þrastalund og komum þar að læstum kofanum. Keyrðum þá sem leið lá yfir á Minni Borgir og þaðan yfir í Reykholt.

Útsýnið á heiðríkum og björtum degi er engu líkt í þessum landshluta. Sérstaklega var ég hugfangin af Heklu sem stóð svo reisuleg og hvít upp úr landinu. Þá voru Tindfjöll einni mikið augnayndi, alhvítir tindar og hvassir að sjá.

Við áðum á Café Mika í Reykholti þar sem drengirnir fengu langþráðan espresso bolla. Þeir vildu nú endilega að ég fengi mér eitthvað, eplaköku, te, konfektmola?

Úr Reykholti keyrðum við síðan yfir á Þingvöll til að athuga hvort haustlitirnir væru enn á sínum stað. Þar stoppuðum við fyrst við Vatnsvik sem minnti okkur Baldur mjög á Vassvika á Lovund en þangað gengum við oft á kvöldin eftir vinnu. Í þessu tilviki eru Vatnsvik sambærileg við munnvik og ekki skal ruglast á vik og vík!

Frá Vatnsvikum var greið sýn yfir Þingvallavatn og allar spegilmyndir þess, og svo risu stórir, feitir gufubólstrar upp frá Nesjavöllum og gáfu til kynna öflin í landinu.

Við keyrðum síðan nær hjarta Þingvalla og gerðum okkur gönguferð upp að Lögbergi. Stöldruðum yfir Flosagjá og Öxará til að taka inn vellina. Svo vildi Baldur endilega að við kíktum á Drekkingahyl, og ég held að við Pétur höfum verið svolítið uggandi um hag okkar í ljósi þess hve fast hann sótti þetta. En okkur varð sem betur fer ekki meint af því að kíkja með Baldri að Drekkingahyl.

Þingvellir voru svalir og fallegir og við urðum að koma við á gestastofunni fyrir síðasta kaffisopann áður en lagt yrði í hann yfir Mosfellsheiði.

Það sem mér er efst í huga eftir svona yndislega ferð um landið er þakklæti og sterk upplifun af forréttindum. Að hafa hreinan og fallegan þjóðgarð nánast í bakgarðinum og geta heimsótt hann með léttum leik á sunnudagseftirmiðdegi er ekkert annað en forréttindi.

Rebelinn var ekki með í för að þessu sinni en Sony vélin gerði Þingvöllum góð skil, eins og sjá má í albúminu.

Vatnsvik
 
Sprelligosar
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Afi og afabarn
 
Gull og gersemi í Flosagjá
 
Bærinn og hraunið
 
Kúreki
 
Öxará

Engin ummæli: