Á laugardaginn hjóluðum við um bæinn og kíktum á ABC nytjamarkaðinn. Það kom mér verulega á óvart hvað hann er huggulegur: postulíni stillt svo smekklega og faglega fram, raðað eftir litum, allt hafði sinn stað. Meira að segja notuðu fötin voru til fyrirmyndar, vel farin og vel lyktandi meira að segja!
Við vorum mætt svona í bland til að forvitnast og til að skyggnast eftir skenki sem við værum alveg til í að fá inn í stofu. Við fundum einn skenk en hann var svolítið undinn og auk þess of dýr fyrir það sem hann var.
Við fórum þó ekki tómhent út því ég fann fallegt ullarpils frá Vero Moda og Baldur þefaði uppi bók um Jón Pál sem var svo nýleg að sjá að hún gæti allt eins hafa komið beint úr prentsmiðjunni. Fyrir þetta greiddum við heilar sex hundruð krónur.
Við komum líka við í Rúmfatalagernum því vegna vöntunar á skápum í íbúðunni vorum við á höttunum eftir hengi inn í svefnherbegi og skógrind inn í forstofu. Fengum hvorutveggja á fjórðungsafslætti og skoðuðum líka skenki í leiðinni til að fá tilfinningu fyrir verðlagi. Ætla á næstu dögum að skoða notuð húsgögn til sölu á vefnum og vil vita hvaða verð er ásættanlegt í þeim efnum.
Það má því segja að við höfum notað laugardaginn svolítið til þess að draga björg í bú.
Á sunnudaginn fórum við aftur á móti í langan og góðan hjólatúr, alla leið upp að Elliðaám. Fórum upp að Árbæjarsundlaug og brunuðum svo hratt niður dalinn. Við sáum nokkrar kanínur og margt haustlaufið en aðallega naut maður þess að draga að sér svalt loftið. Það er nefnilega über svalt svona við ár og vötn, ekki satt?
Leiðir skildi þegar við vorum komin að Bókhlöðunni. Þá fór Baldur þangað inn til að hitta félaga sinn en ég hjólaði aftur á móti til mömmu á Grandanum. Fékk þar að strauja skyrtu á straubretti, ekki leist mér nefnilega á þegar Baldur lyfti henni upp, setti í brýnnar og spurði hvort það þyrfti nokkuð að strauja hana?
Um kvöldið kom sér sem sagt vel að hafa nýstraujaða skyrtu í húsinu þegar við tókum að hafa okkur til. Ég gaf mér góðan tíma í það og naut hvers augnabliks, það er orðið svo langt um liðið síðan ég hafði tækifæri til að hafa mig til svo þetta tækifæri skyldi nýtt til hins ýtrasta.
Uppábúin og fín smeygðum við okkur svo í aftursætin á Súbarúnum hans pabba og svo brunuðu hin fjögur fræknu yfir í Borgarleikhúsið til að horfa á sýninguna Svar við bréfi Helgu. Það var dásamlegt sýning með frumlegum útfærslum og einlægum. Mæli alveg með ferð í Borgarleikhúsið, sem er eins gott að ég geti því við vorum að kaupa okkur áskriftarkort í umrætt leikhús og eigum fjórar sýningar eftir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli