föstudagur, 19. október 2012

Orden

Fyrr í þessari viku fór íbúðin að taka á sig nýja og ólíkt betri mynd. Fyrst reyndar var það þvottahúsið sem er ekki innan íbúðar heldur niðri í kjallara, en breytingarnar sem um ræðir voru svo ánægjulegar að ég verð að minnast á það hér.

Þessi eldgamla Eumania þvottavél sem fylgdi íbúðinni gaf loks upp öndina í síðustu viku, orkaði ekki lengur allar þessar vindur sem fylgir nútímafólki og þvotti þess. Sagði bara hingað og ekki lengra og lét flísteppið okkar mara í hálfu kafi, að hluta til þurrt og að hluta til blautt.

Svo nú er komin nýrri og betri vél sem vindur almennilega og er fljót að því. Engar fleiri ferðir niður í þvottahús til að hanga yfir þvottavélinni og plata hana til að vinda. Ó, þvílík gleði!

En breytingarnar innan íbúðar eru líka stórgóðar. Fyrr í vikunni losnuðum við við annan sófann, sjónvarpið og sjónvarpsborðið og allt í einu var hellingspláss í íbúðinni. Halló gólfflötur!

Í gær stóðum við svo í stórræðum: skárum upp herör gegn kössunum. Pökkuðum dótinu úr þeim upp, það sem átti að verða eftir fór inn í skenk og aðrar hirslur, það sem skyldi fara í geymslu fór aftur í kassa. Mössuðum þetta á stuttum tíma. Færðum svo sófann í hinn enda stofunnar og öllum snúrum sem fylgja.

Tókum okkur pásu með því að heimsækja nýju nágrannana, ítölsku matsöluna Piccola Italia sem opnaði í dag og þaðan sem kryddlyktin hafði dreifst um allan bakgarð og inn um opna glugga allan daginn. Við vorum búin að vera ærð af hungri í allan dag! Smakkaði ravioli fyllt með spínati og ricotta á meðan Baldur fékk sér caprese salat með tómötum, basilíku og ekta ítalskri mozzarella. Þegar við vorum orðin pakksödd og farin að ropa færðu vertarnir okkur sitthvora sneiðina af tiramisu, í boði hússins svona af því við erum nágrannar.

Þegar við komum aftur heim sáum við að þetta nýja sófafyrirkomulag kæmi ekki til með að virka, það var alveg í mótsögn við okkar innra feng shui! Svo við færðum sófa, borð og snúrur aftur til fyrra horfs og gátum andað léttar.

Tókum svo rækilegan lokasprett með hjálp Péturs afa Baldurs. Sóttum borðstofusett og fjóra stóla til mömmu og komum því upp á Snorrabraut í tveimur ferðum. Hlóðum svo restinni af kössunum inn í bílinn og fórum með upp í geymslu.

Enduðum svo í sundi í Vesturbænum og mýktum upp harðduglegu vöðvana okkar.

Í dag hafa svo staðið yfir vikulegu þrifin og nú þarf ekki lengur að skúra framhjá kössum eða klóra sér í hausnum yfir hvert skal setja hvað. Nú hefur allt sinn stað: Skenkinn!

Og við fengum okkur blóm í tilefni nýja fyrirkomulagsins. Ætli ég sýni ekki bara myndir af blóminu og skenknum eftir helgi.

Góða helgi!

Engin ummæli: