laugardagur, 8. desember 2012

Súkkulaðibitakökur

Súkkulaðismákökur
 
Súkkulaðismákökur
 
Súkkulaðismákökur
 
Þessar súkkulaðibitakökur eru æði! Svo eru þær svo jólalegar, þannig að þær eru búnar að vinna mig á sitt band.
Ég bakaði þessar fyrst fyrir nokkrum árum og endurtók leikinn nú um daginn. Uppskriftin kemur frá Sollu, úr Grænum kosti Hagkaupa, og hér er enginn hvítur sykur eða hveiti. Það er reyndar sykur í súkkulaðinu sem er bætt út í en hér getur maður sjálfur stjórnað hversu sætt súkkulaði maður velur í kökurnar. Ég blandaði sjálf 70% og 50% og það kom mjög vel út. Þeir sem þori geri betur!

Ég tek fram að ég hef örlítið breytt uppskriftinni, nota kókosolíu í stað ólífuolíu eins og Solla leggur til og súkkulaði í stað karob.

Hvað:
100 g heslihnetur
25 g kakóduft, lífrænt
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
smá sjávarsalt
125 g dökkt súkkulaði
85 ml kókosolía
300 g döðlur
2 egg
1 tsk vanilluduft
300 dökkt súkkulaði, saxað

Hvernig:
Leggið döðlurnar í bleyti, nema nota eigi ferskar döðlur. Malið heslihneturnar í matvinnsluvél. Malið súkkulaðið í matvinnsluvél (300 grömmin).

Blandið saman í skál: heslihnetunum möluðu, kakódufti, vínsteinslyftidufti og sjávarsalti.

Bræðið 125 grömmin af súkkulaði yfir vatnsbaði. Sigtið döðlurnar og maukið í matvinnsluvél. Bætið út í kókosolíu og eggjum, vanillu og brædda súkkulaðinu. Hellið deiginu í rúmgóða skál og hrærið út í deigið þurrefnunum úr hinni skálinni (heslihneturnar, kakóduftið, lyftiduftið og saltið).

Setjið veglega matskeið af deigi fyrir hverja smáköku á ofnskúffu klædda bökunarpappír. Þetta verða 14-16 stk með því móti.

Bakist við 180°C í 10 mín., undir og yfir.

Ég hef gert þessa uppskrift tvisvar: í fyrra skiptið notaði ég þurrkaðar döðlur sem ég lagði í bleyti og í seinna skiptið notaði ég ferskar döðlur. Fersku döðlurnar bleyta deigið og kökurnar komu grútlinar út úr ofninum. Ég man hins vegar ekki hvort það sama hafi verið upp á teninginn með þurrkuðu döðlurnar. En það kemur ekki svo að sök því bara með því að leyfa smákökunum að kólna vel þá ná þær fastara formi.

Engin ummæli: