þriðjudagur, 11. desember 2012

Akranes

Leið mín í gær lá út á Akranes, eða upp á Skaga svo ég noti nú slangið sem ég kann. Ég fór til að heimsækja vinkonu mína hana Maríu sem á þar hús og mann og börn og hund og garð.

Það vill svo heppilega til að nú er hægt að taka strætó frá austurbæ Reykjavíkur og allaleið upp á Skaga. Það eina sem ég þurfti að gera var að rölta yfir á Hlemm og taka þar leið 19, fara úr á Ártúnshöfða og rölta yfir í vagn 57, sem var meira eins og rúta en hefðbundinn strætisvagn. Þegar ég var svo búin að spenna beltið gat ég sökkt mér ofan í lestur. Hugsa sér lúxusinn að þurfa ekki að hafa athyglina við akstur og áhyggjur af færð og hálkublettum. Hallelúja! Þetta var opinberun. Rétt náði að líta upp þegar við brunuðum framhjá Esju, nei sæl góða mín.

Þegar ég svo sigldi inn í bæinn kom María færandi hendi og sótti mig, hún og litla Sunna. Það sem gerðist síðan var að einhver hraðspólaði yfir daginn og áður en ég vissi af vorum við búnar að kjafta um heima og geima, sækja börnin á leikskóla og skóla, borða hádegismat, borða kökur og kleinur úr bakarínu, horfa á karate kötur og hlusta á blokkflautuleik og ekki bara það, heldur fara upp í íþróttahús, koma okkur fyrir á áhorfendapöllunum og fylgjast með sjö ára skvísum taka stöðupróf í fimleikum, sem Birgitta hennar Maríu stóð sig svo glimrandi vel á.

Áður en við vissum af var klukkan langt gengin í sjö og tími fyrir mig að taka næsta vagn heim. Sem gekk svona líka ljómandi vel að ég tók ekki einu sinni eftir því þegar við keyrðum undir Hvalfjörðinn, svo niðursokkin var ég í lestur. Var hálfringluð þegar við röddin í hátalarakerfinu tilkynnti að við værum stödd við Esjuskála, en ég vissi að það gæti ekki staðist þar sem Esjan væri hinu megin fjarðar. En svo var raunin og það vorum við sem vorum hinu megin fjarðar.

Að taka strætó er æði, að taka strætó út á land er snilld!

Engin ummæli: