miðvikudagur, 12. desember 2012

Marokkóskur tagine pottréttur

Marokkóskur tagine pottréttur
Þennan pottrétt datt ég niður á um daginn þegar ég var að leita að uppskriftum fyrir butternut grasker. Prófaði að elda réttinn og fannst hann afskaplega góður. Prófaði svo aftur í gær og að þessu sinni notaði ég sæta kartöflu í stað graskers og það koma líka mjög ljúffenglega út. Og nú er tímabært að deila uppskriftinni hér því vetur er ekki bara tími súpunnar heldur einni pottréttarins.

Ef tagine pottur er til á heimilinu er þetta rétturinn til að elda í honum!

Hvað:
1 msk góð olía
1 laukur, saxaður
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
3 msk þurrkuð papríka
1 lítið butternut grasker eða stór sæt kartafla, flysjað og skorið í teninga
3 gulrætur, skornar í sneiðar
1 græn papríka, skorin í teninga
1 dós kjúklingabaunir eða garbanzo baunir
1 dós niðursoðnir tómatar
1 bolli grænmetissoð
1 msk sæta (t.d. agave), minna ef notuð er sæt kartafla
1 msk sítrónusafi
1 tsk mulinn kóríander
1 tsk cumin
cayenne pipar af hnífsoddi
salt og pipar

Fyrir ævintýragjarna: bætið apríkósum, rúsínum og smá kanil út í réttinn.

Hvernig:
Steikið lauk, hvítlauk og þurrkaða papríku í 10 mín. Bætið út í graskerinu/sætu kartöflunni, gulrótum og papríku og steikið í 5-10 mín. Því næst bætið við kjúklingabaunum, niðursoðnum tómötum, grænmetissoðinu, sætunni, sítrónusafa og kryddum. Hrærið vel saman og leyfið að malla við vægan hita í 30 mín. eða þar til grænmetið er mjúkt undir tönn.

Þennan rétt má bera fram með cous-cous eða hrísgrjónum. Svo bætti ég smá tamari sósu við til að gefa fyllra bragð og það var jömmílisjös.

Engin ummæli: