Þetta var skemmtileg stund og margt rifjað upp bæði í ræðum og almennu skrafi. Rós frænka, frumburðurinn, hélt alveg frábæra ræðu um ömmu og afa og náði svo vel að framkalla myndir og minningar í hugarfylgsnum nærstaddra. Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar, veitti bekknum viðtöku og rifjaði líka upp margt skemmtilegt enda hjónunum vel kunnug. Hér má sjá frétt Kópavogspóstsins.
Það sem mér þótti einna skemmtilegast við mómentið var að þarna var samankominn ákveðinn kjarni úr gamla SVK genginu. Þessir menn voru allir afar góðir vinir ömmu og afa og hef ég notið margs góðs frá þessum hópi sjálfur. Má segja að þarna séu komnir aukafrændur sem allir lögðu hönd á plóg við uppeldi mitt og á maður ótal skemmtilegar minningar af verkstæðinu.
Eru mér sérstaklega hugleiknar minningarnar frá því að ég hóf göngu mína í Kársnesskóla í sjö ára bekk. Þá var fjölskyldan búsett í Bræðratungu 17 og leigði raðhús af Einari Óskarssyni, einum af bræðrunum eins og þeir voru jafnan kallaðir. Bræðurnir í Bræðratungu eru þrír: Guðmundur, Einar og Magnús og bjuggu einmitt við hliðina á okkur. Guðmundur starfaði þá hjá SVK og var afar góður vinur afa og ömmu. Hann hefur svo lengi sem ég man eftir mér gengið undir nafninu Guðmundur okkar innan fjölskyldunnar.
Frá Bræðratungunni og út í Kársnesskóla er nokkur spölur að fara fyrir sjö ára snáða en til mikillar mildi var Kársnesskóli akkúrat á leiðinni í vinnuna fyrir Guðmund okkar. Dagarnir hjá mér hófust þá með því að Guðmundur bauð hlýlega góðan daginn og opnaði þolinmóður fyrir mér bakdyrnar á Kópavogsgrænum Benz sendibíl þar sem ég sat pollrólegur á afturbrettinu alla leið út í Kársnesskóla. Þar hoppaði ég svo út og hvor hélt sína leið út í daginn. Erfitt að setja þessar stundir í orð en þær voru fallegar og ylja mér um hjartaræturnar.
Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi í lífinu að fá að vera mikið með ömmu og afa. Þau voru alltaf boðin og búin til að hjálpa eða vera með í einhverju skemmtilegu. Þau voru mikið dugnaðar- og framkvæmdafólk og alveg ótrúlega samheldin. Alltaf eitthvað að bauka: sjálfboða- og félagsstörf, bókaútgáfa, flutningar barna eða barnabarna og svo mætti lengi telja.
En nú nenni ég ekki að múra meira (tilvísun í skemmtilega sögu) og leyfi myndunum að tala sínu máli. Þetta eru myndir frá afhendingunni en sú neðsta er síðasta myndin sem tekin var af mér með bæði ömmu og afa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli