Við fórum í pikk nikk í gær!
Pökkuðum saman góðu nesti sem samanstóð m.a. af vatnsmelónu, ístei með klaka og þriggja bauna salati. Tókum svo fram hjólin og ætluðum að hjóla sömu leið og við höfðum gengið um daginn. Sem hefði átt að taka svona 20 mínútur. Það tók að þessu sinni upp undir klukkutíma þar sem við margvilltumst. Trufluðum margan Norðmanninn á göngu til að biðja um leiðsögn og jafnvel tvær virðulegar eldrir frúr sem stóðu og kjöftuðu yfir limgerðið. Allir virtust benda í sitthvora áttina og gefa ólíkar leiðbeiningar, svo það kemur kannski ekki svo á óvart að ferðin tók sinn tíma.
Þegar við loksins komumst á áfangastað og höfuðum fundið okkur góða klöpp til að sitja á vorum við orðin svo soltin að við blésum strax til snarls. Og þá var öllu til tjaldað: pikk nikk teppi breitt út yfir klöppina, plastglösum stillt upp, gafflar mundaðir og viskustykkið lagt ofan á fægðan silfurbakkann (eða hvað?). Meðan við borðuðum horfðum við yfir bjartan vatnsflötinn og hlustuðum á hlátrasköll og busl frá öðrum sumargestum sem höfðu komið til að baða sig.
Við töldum okkur hafa undiðbúið okkur ansi vel en við vorum ekki viðbúin öllum óboðnu gestunum sem vildu koma upp á teppið til okkar og gramsa í öllum okkar föggum. Ég er að tala um maurana, en þeir bitu okkur bæði. Ái!
Við stungum okkur að sjálfsögðu út í sjálfa tjörnina sem var svöl og djúp með hálum, grænum steinum. Endurnar héldu sig í hæfilegri fjarlægð meðan við vorum ofan í vatninu, en þegar við vorum komin upp úr aftur og farin að henda til þeirra brauðmolum af klöppinni vildu þær endilega heilsa upp á okkur.
En ég er að gleyma því markverðasta! Við Åletjern er að finna hátt stökkbretti, á að giska fimm metra hátt, sem við gerðum okkur lítið fyrir og stukkum fram af! Það verður nú samt að fylgja sögunni, til að gæta sannsögli, að ég reif mig út á brettið á undan Baldri og ætlaði aldeilis að koma honum á óvart með því að hlaupa út plankan og svífa síðan út í vatnið. Það sem gerðist í raun var að ég hljóp út plankann og svo skransaði ég rétt áður en ég kom að enda brettisins og var bara einu skrefi frá því að herma eftir Andrési Önd og fleiri fínum fígúrum sem geta stoppaði í lofti áður en þær hrapa niður. Úff. Það tók mig langan tíma að róa æst hjartað sem bankaði duglega og var eflaust að reyna að segja: Get me out of here! Þessi stelpa ætlar að hoppa fram af!
En það hafðist eftir nokkurt hik og eftir að hafa sent Baldur á undan mér. Ég stökk!
Á bakaleiðinni heilsuðum við upp á hestana sem búa tveir innan við lága rafmagnsgirðingu inni á grænu túni. Mér sýndist þeim vera alveg jafnheitt og mér eftir daginn. En greyin fengu engan sundsprett í Åletjern og ekkert íste með klökum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli