miðvikudagur, 17. júlí 2013

Heimalagað engiferöl

Heimalagað engiferöl

Ég er í áskrift að fréttabréfum frá Yoga International og á dögunum sendu þau bréf þar sem var m.a. að finna uppskrift að engiferöli. Ég er mjög hrifin af engiferöli, og þar sem það fæst ekki í búðinni hjá okkur ákvað ég að taka málin í mínar eigin hendur og laga mitt eigið engiferöl.

Það er ekki vandasamt að útbúa engiferöl en það tekur tíma því fyrst þarf að útbúa engifersírópið og síðan þarf að hella því í flösku og kæla. Ég fékk heilan lítra upp úr krafsinu og þennan lítra þynnir maður síðan út með hlutföllum sem falla að eigin smekk.

Hér kemur uppskriftin.

HVAÐ
Hálfur bolli af rifnu engiferi
1 bolli reyrsykur
4 bollar vatn

HVERNIG
Skellið öllu hráefninu í pott og náið upp suðu. Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið malla í 10 mínútur. Takið til hliðar, kælið og hellið í gegnum sigti til að síja frá tægjur.

Hellið sírópi í glas (t.d. 1:3), bætið við sódavatni, klökum og lime sneiðum ef vill.

Geymið engifersírópið í ísskáp. Athugið að bragðið styrkist dag frá degi.

Skál!

Engiferöl
 
Engiferöl
 
Engiferöl
 
Engiferöl

Engin ummæli: