mánudagur, 15. júlí 2013

Helgin 1-2-3-4

Helgin 1-2-3-4

Hér er helgarannáll í stiklum:

1 - BERJASUMAR! Ég segi það einu sinni enn: Þetta er algjört berjasumar! Það skýrir mögulega af hverju ég næ þessum brandara ekki úr hausnum: Hefurðu séð sól berja sultu? Og þar sem það er heitt sumar, þá er þessi ekki langt undan: Hefurðu séð ís í boxi? (sem kallar á næsta brandara: Hefurðu séð kú reka stígvél?) Eníveis, morgunmatur úti á svölum þessa helgina, eða kannski ætti ég að segja í sólstofunni: Jarðarber, bláber, banani, múslí, kefir, hunang, gott start í hvaða dag sem er.

2 - ENGIFERÖL! Sem ég bruggaði sjálf, takk fyrir. Alveg eitursterkt, en það er afskaplega gott að þynna það út með köldu sódavatni og klökum. Uppskrift á leiðinni.

3 - SALSA! Ég var einu sem oftar að gramsa á áhugaverðir matreiðslusíðu og rakst á einfalda uppskrift að sölsu. Skellti í hana um helgina og svo gæddum við skötuhjú okkur á henni með söltuðum nachos. Það er lífið! Uppskrift innan tíðar.

4 - LEMON BARS! Já, þessi helgi var eitt risatilrauneldhús. Mig langaði svo að prófa að búa til sítrónubarra svo ég dreif mig bara í því. Þeir komu svolítið dökkir að ofan úr ofninum en bragðið!... Mæ ó mæ, þeir eru æði! Uppskrift ekki langt undan.

Semsé, ég vaknaði á laugardaginn þrælspennt því ég var búin að plana dag í eldhúsinu, og mér finnst þessa dagana fátt skemmtilegra en að prófa mig áfram í eldhúsinu. Flysjaði engifer, reif niður sítrónubörk, sigtaði hveiti, sauð sykur í vatni, reif niður ferskan kóríander... þetta er bara sýnishorn af öllum handtökum laugardagsins.

Við kíktum líka út. Það hefur verið svo heitt undanfarið að maður hættir sér nánast ekki út fyrr en seinnipartinn þegar sólin er aðeins farin að gefa eftir. Ég vona bara að þessi bongóblíða haldi áfram. Gefur mér kjörið tækifæri til að klæðast nýju stuttbuxunum.

Hér er síðan mjög áhugavert TED talk sem Baldur sendi mér fyrir helgi. Ég horfði á það og deildi því á fésið, deili því hér líka svo það sé geymt á vísum stað.

Engin ummæli: