Á þessu tiltekna matreiðslunámskeiði lærðum við að útbúa malai kofta (vá, hvað sá réttu er himneskur!), mynturaitu og aloo ka parantha. Aloo ka parantha, eða bara parantha eins og þessi fylltu flatbrauð kallast í norður Indlandi, er einfaldlega chapatti brauð (hið daglega brauð Indverja) fyllt með soðnum kartöflum (aloo), rauðlauk (pyaaz) og góðum kryddum (masala), sem síðan er steikt á pönnu. Þetta er algengur morgunmatur, sem ég veit að okkur þykir sérkennilegt - kryddaður matur í morgunmat?! - en þessi flatbrauð eru alveg mergjaðslega góð! Líka á morgnana!
Og af því ég er hvort í senn áhugasöm um matreiðslu og ljósmyndun og svo sæt í mér þá set ég þessa uppskrift út fyrir þau ykkar sem langar að prófa að fá Indland beint á bragðlaukana. Ef maður kemst ekki til Indlands þá getur maður allavega fengið Indland heim til sín.
Hér að neðan er síðan myndband sem ég klippti saman frá matreiðslunámskeiðinu. Þar má sjá ferlið við að útbúa deigið og hvernig það er fyllt með kartöflustöppunni. Ég get erfiðlega lýst með orðum hvernig maður ber sig best að og því mæli ég eindregið með að kíkja á myndbandið til að sjá hvernig maður fer að því að hnoða í deigið og rúlla því út. Handbragð, handbragð, handbragð!
Ok, búum til aloo ka parantha!
HVAÐ
200 g hveiti
Smá vatn
3 kartöflur, soðnar og skrældar
1/4 - 1/2 úr rauðlauk, saxaður smátt (magn eftir smekk)
1/2 tsk cumin fræ
1/2 tsk garam masala
örlítið af chili
1 tsk fenugreek lauf (ég sleppti þessu því ég átti þetta ekki til)
1/2 tsk salt
1/2 tsk carom seed (ég sleppti þessu því ég átti þetta ekki til)
HVERNIG
Stappið kartöflurnar vel saman og blandið smátt skornum lauknum saman við. Bætið kryddi og salti saman við og hrærið vel. Leggið til hliðar.
Setjið hveitið í þægilega skál, hellið smá vatni saman við. Byrjið að hræra hveiti og vatni saman með höndunum. Bætið vatni við í smáum skömmtum (sjá myndbandið). Þegar hveitið og vatnið hafa gengið vel saman má byrja að hnoða deigið. Hnoðið þar til deigið hefur fengið góða þéttni. Fínn mælikvarði er að þrýsta þumlinum í deigið og ef hann skilur eftir sig dæld sem óðara byrjar að fyllast aftur upp í, hefur deigið náð góðum teygjanleika.
Næst á dagskrá er að rúlla deiginu út í ílanga rúllu og skipta henni í fjóra parta. Rúllið hverjum parti í góða kúlu. Dýfið kúlunni í hveiti og byrjið að fletja hana út milli fingranna (sjá handtök í myndbandi). Skiptið fyllingunni í fjóra parta. Fyllið því næst útflatt deigið með einum fjórðungi af katöflufyllingunni, ljúkið deiginu yfir fyllinguna og passið að þrýsta köntunum vel saman. Hér getur verið gott að væta fingurgómana í vatni til að hjálpa deiginu að límast betur saman. Ef það reynist erfitt að loka kúlunni aftur er of mikil fylling í, og þá má fjarlægja svolítið af henni til að auðvelda sér verkið.
Ok, næst er að dýfa flottu, fylltu kúlunni í deig og því næst leggja á borð, taka sér kefli í hönd og byrja að fletja út bolluna þangað til hún tekur á sig mynd flats brauðs. Ef laukurinn er of gróft skorinn rífur hann gat á yfirborð flatbrauðsins, en það gerir ekki mikinn skaða.
Steikið á létt olíuborinni pönnu við háan hita. Gott að dýfa pensli í olíu og létt bursta flatbrauðið að ofan á meðan það steikist á annarri hliðinni. Paranthan er tilbúin þegar brauðið er farið að dökkna verulega.
Þessi flatbrauð er mjög gott að borða ein og sér, finnst mér, en Indverjar borða þau oftast með jógúrt raitu, pikkluðum chili/mangó/tómat og chutney, og auðvitað brennheitu chai. Einnig góðar með smjöri!
Þessi parantha flatbrauð er einnig hægt að búa til með spínati (palak) og blómkáli (gobi).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli