laugardagur, 24. ágúst 2013
Fiskitúrar
Að (reyna að) veiða fisk er góð skemmtun. Hér í Skien finnast fiskar sem við fáum ekki í íslenskum ám og vötnum, t.d. gedda. Geddan er afskaplega góður matfiskur en hún er svo hrikalega gráðug að hún étur ekki bara alla hina fiskana, heldur andarungana og Gísla, Eirík, Helga og ábyggilega köttinn með.
Heimamenn eru hvattir til að veiða þetta árásargjarna ljúfmeti í sem mestu magni. Hann Kjell Remi vinnufélagi minn er mikið fyrir þessa iðju og hefur sjanghæað mig með sér tvo ólíka en skemmtilega túra.
Fyrir fyrri túrinn fengum við lánaðan bíl og splæstum í rækjur í beitu og höfðum með okkur alls konar dót. Lögðum af stað síðla dags, rerum litlum báti um vatnasvæði uppi á einhverjum hólnum hér í grennd. Fór svo að við kræktum í geddu og aborra. Það var svo ekki fyrr en seint um kvöld og löngu komið niðamyrkur að við komum með aflann til byggða, skiluðum bílnum og ég rétt náði síðasta strætisvagni í átt að heimahaganum, vantaði samt 4-5 kílómetra upp á að hann gengi alla leiðina.
Ekki vildi samt betur til en svo að vagninn sem átti að klára að skila mér uppeftir svaraði ekki talstöð og var að líkindum úr umferð. Þetta leist mér illa á, með afla, stígvél og óþarflega mikið af græjum.
Að labba upp Gulset og klukkan að ganga eitt! Greinilegt var að vagnstjórinn var á sama máli því hann spurði mig hvar ég ætti heima og skutlaði mér eins nálægt og hægt var með góðu móti. Ég man nú bara ekki eftir öðrum eins liðlegheitum síðan SVK var og hét. Ég legg ekki meira á þig lagsmaður!
Seinni fiskitúrinn var nú eiginlega meira svona sólar-, hjóla- og göngutúr með veiðistangir. Við veiddum ekki neitt en hjóluðum líklega 30-40 kílómetra, gengum líklega um 5 kílómetra og klöngruðumst á marga fiskilega staði við vötn og ár. Ekkert beit á en við urðum heltanaðir, koldrullugir, rennblautir og sársvangir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli