mánudagur, 26. ágúst 2013
Helgarpistillinn
Þessa helgina nutum við mikillar veðurblíðu hér í Skien. Ég notaði reyndar laugardaginn í bakstur svo veðurblíðan þann daginn fór svolítið framhjá mér, en sunnudagurinn var líka fallegur og þá fórum við út úr húsi.
Ég bakaði hvorki meira né minna en tvær sortir á laugardaginn: Pizzasnúða og Parísarbollur. Í bæði skiptin er um að ræða gerbakstur og þar með er einnig um að ræða tímafrekan bakstur. Fyrir pizzasnúðana þarf ennfremur að kokka upp sósu og leyfa henni að kólna, svo þau eru mörg handtökin. En my oh my, þeir eru hvers handtaks virði, svo ljúffengir eru þeir. Og hvað haldiði? Ég ætla að deila uppskriftinni að þessum uppáhaldssnúðum með ykkur hér á hnotskurninni einhvern tímann á næstunni. Þið eruð dekruð, hafið það hugfast.
Parísarbollurnar, aftur á móti, voru vonbrigði. Mér fannst dúlleríið í kringum þær mjög skemmtilegt: sjóða upp vanillusósu, fletja út deig, fylla hverja bollur og loka henni og velta upp úr sykri. En útkoman var óspennandi, og ég held ég hafi ekki einu sinni borðað heila bollu. Ég fyllti nokkrar með sultu þegar vanillukremið var uppurið, og þær voru bragðmeiri en þó klístraðri því sultan lak út úr bollunum í ofninum. Ég þarf ekki að prófa að baka Parísarbollur aftur, það er næsta víst.
Á sunnudaginn nutum við veðurblíðunnar með því að hjóla til Skotfoss. Þar skoðuðum við skipastigann og kirkjuna, pikk nikkuðum við ánna og lásum. Um kvöldið útbjó ég æðislega grænmetisborgara. Sú uppskrift kemur líka á hnotskurnina einhvern tímann á næstu dögum.
Góð helgi að baki. Gleðilegan mánudag!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli