Sunnudaginn síðasta fórum við í smá dagstúr. Við hjóluðum yfir í smábæinn Skotfoss sem liggur hér upp við Skien. Þetta eru rétt rúmir sex kílómetrar og þar af er löng brekka niður í mót, Gulsetringen. Síðan beygir maður til vesturs inn á Skotfossvegen og hjólar þá meðfram Meierelva.
Það er næstum hægt að lýsa landslaginu sem stórbrotnu: hægt líðandi áin á aðra höndina og skógi vaxin hlíðin á hina. Hvert sem maður lítur eru trjátoppar ofar trjátoppum, græn hæð handan hæðar. Hér er landslag ekki flatt, svo mikið er víst.
Þegar við komum að sjálfum bænum Skotfoss byrjuðum við á því að hjóla að kirkjunni, sem er ansi reisuleg. Þaðan er einnig frábært útsýni yfir Meierelva því kirkjan er reist við ánna en stendur þó ofar en sjálf áin. Við gengum hringinn í kringum kirkjuna og tókum út nágrennið. Vermdum andlitin í sólinni. Dáðumst að fallegum hurðum og glitrandi gluggum.
Næsta stopp var skipastiginn. Til að komast þangað hjólar maður fyrir ósa Meierárinnar og einmitt í beygjunni þar er glæsilegt útsýni yfir að Skotfosskirkju. Þar stöldruðum við við í vegakantinum á meðan ég tók nokkrar myndir.
Til að komast að skipastiganum héldum við áfram í suðurátt. Løveid kanallinn hleyptir smábátum í gegnum sig með aðstoð stiga sem er þannig úr garði gerður að hann er hólfaður niður og síðan ýmist fyllast eða tæmast hólfin af vatni eftir því hvort viðkomandi smábátur er á leið upp í land eða niður. Þannig geta bátarnir klifið áfram frá Þelamörk og lengra inn í land.
Þegar okkur bar að Løveid kanalnum höfðum við heppnina með okkur því í kanalnum beið bátur eftir því að sigla niður stigann. Við fylgdumst með skipastigaverðinum opna hliðin milli hólfa og sáum vatnið fossa úr efra hólfinu niður í það neðra. Þegar vatnsyfirborðið hafði jafnast út sigldi báturinn yfir í neðra hólfið. Síðan endurtók ferlið sig. Meðan báturinn beið, og bátsverjar heilsuðu upp á kunningja á bakkanum, lokaði skipastigavörðurinn efra hliðinu og opnaði það neðra og vatnið tók að fossa. Í þessum rólegheitum kleif báturinn hægt og sígandi niður Løveid kanalinn og að endingu komst hann niður að Meierevla og gat þá siglt áfram, með norska fánann blaktandi.
Á meðan við fylgdumst með bátnum í stiganum vorum við með öðru auganu að fylgjast með hvítum ketti sem var að sniglast í kringum stigann. Mjallahvítur skipastigaköttur. Hann hélt sig í grænni brekkunni rétt fyrir ofan bakkann og vildi í fyrstu ekkert við okkur tala, þrátt fyrir viðleitni Baldurs. Hvíti-Brandur lét þó að lokum tilleiðast og gaf Baldri konunglegt hnus áður en hann skokkaði í átt að skipastiganum. Það var nefnilega verið að opna neðsta hliðið og hann vildi ómögulega missa af vatnsflaumnum. Hann fór yfir litla brú og staldraði þar, horfði er að því virtist hugfanginn á fossandi vatnið.
Við köstuðum kveðju á dáleiddan Hvíta-Brand og héldum för okkar áfram. Frá kanalnum héldum við áfram í suður og römbuðum að stóru og reisulegu húsi. Nánari eftirgrennslan okkar leiddi í ljós að hér áður fyrr hýsti þessi reisulega bygging pappírsverksmiðju, en í dag er þar fornmunasala sem aðeins er opin um helgar. Það var reyndar búið að loka þegar okkur bar að garði en við kipptum okkur ekkert upp við það heldur héldum áfram og tókum nú að skima eftir notalegum bletti fyrir teppið okkar.
Við fundum hann eftir stutta leit. Við ánna er fínasti trjálundur með pikk nikk borðum, og skammt þaðan fundum við laut þar sem við breiddum út teppið og drógum fram vínberin. Síðan tók ég upp Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert og las upphátt fyrir Baldur í sumrinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli