föstudagur, 30. ágúst 2013

Grænmetisborgarar

Grænmetisborgari

Þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn komumst við upp á lagið með að borða grænmetisborgara. Þá gat maður keypt tilbúna borgara í Irmu sem voru ansi góðir. Sumarið 2006 vorum við ábyggilega með grænmetisborgara á matseðlinum hverja viku. Hér í Skien, aftur á móti, fást engir grænmetisborgarar út í búð. En það er ennþá sumar og sumur kalla á góða borgara. Þá verður maður bara að bretta upp ermar.

Þessa uppskrift hamraði ég saman eftir að hafa skoðað margar ólíkar uppskriftir að baunaborgurum á netinu. Ég legg mikið upp úr áferð á borgaranum, og vil að hann sé þéttur og haldi vel lögun sinni. Ég legg minna upp úr bragðinu. Í raun vil ég ekki hafa borgarann mjög bragðmikinn því hann má ekki skyggja á meðlætið, sem að mínu mati gerir góðan borgara: feitur ostur, sölt og súr gúrka, hrár laukur, tómatur, sinnepið. Þannig féll ég t.d. frá öllum uppskriftum sem kölluðu eftir kóríander eða engifer.

Í staðinn útbjó ég mjög einfalda en braðgmilda og góða borgara. Þeir halda vel formi sínu en það er samt langbest að steikja þá strax og þeir koma úr ísskápnum, þannig halda þeir best lögun sinni.

HVAÐ
400 soðnar kjúklingabaunir (ein dós)
Papríkuduft
Season all
Pipar
1 laukur, fínt saxaður
1 lítil gulrót, rifin á járni
Hálfur stilkur sellerí, rifinn á járni
1 rauður chili, saxaður
1 miðlungsstórt egg
2-3 msk raspur

HVERNIG
1. Maukið baunirnar í matvinnsluvél.
2. Bætið við kryddinu. Ég set nóg af papríkudufti til að maukið taki á sig rauðan blæ.
3. Þegar baunirnar eru vel maukaðar bætið þá útí lauknum og rifnu grænmetinu.
4. Að lokum bætið við egginu og hrærið saman við baunablönduna.
5. Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið hvern hluta í tennisbolta.
6. Veltið hverjum bolta fyrir sig upp úr raspi.
7. Leggið boltana á bretti klætt bökunarpappír eða plastfilmu og þrýstið þeim niður með lófanum til að móta úr þeim borgara.
8. Geymið inní ísskáp í a.m.k. 1 klst.
9. Steikið í olíu á pönnu, 5-7 mín. á hvorri hlið.

Með svona góðum borgara finnst mér best að fá mér súrar gúrkur og lauk, tómat, salatblöð, sinnep og auðvitað ost. Með grænmetisborgurum fáum við okkur yfirleitt bakaða kartöflu með kotasælu, sem er algjört lostæti. Mæli með 'ví!

Grænmetisborgari
 
Grænmetisborgari
 
Grænmetis-GÓÐ-borgari

Engin ummæli: