laugardagur, 31. ágúst 2013

Bókarabbið: ágústbækur

Bókarabbið: ágústbækur

Þá er síðasti dagur ágústmánaðar runninn upp og ég held ég sé bara í ágætu stuði fyrir bókarabb.

Ég las einar níu skáldsögur í þessum mánuði, þar af tvær alveg rosalegar: The Ocean at the End of the Lane og The Shipping News. Að sama skapi las ég tvær bækur sem ullu mér miklum vonbrigðum og sem verða, fyrir vikið, ekki til umfjöllunar hér: The Postmistress og Outlander.

Restin fellur síðan þarna á milli, í röð sem lítur einhvern veginn svona út:

Still Life - The Cuckoo's Calling - Why Be Happy When You Could Be Normal? - The Snow Child - The Bean Trees - The Shipping News - The Ocean at the End of the Lane.

Ég ætla að taka fyrir fjórar bestu bækur mánaðarins, plús eina sem var mikið á milli tanna bókaorma fyrr í sumar.

The Ocean at the End of the Lane (2013)
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Neil Gaiman. Gaiman hefur verið á radarnum hjá mér í svolítinn tíma. Nafnið hans er sífellt að poppa upp á listum yfir höfunda sem maður verður að kynna sér og margir bókabloggarar og rithöfundar halda ekki vatni yfir skrifum hans.

Mér fannst því kominn tími á að ég kynnti mér hann. Og þar sem hann var að gefa út nýja bók í júní ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi: lesa mína fyrstu Gaiman bók og lesa splunkunýja bók.

Svo ég greip þessa nýjustu bók hans og ákvað að demba mér bara beint í hana.

VÁ!

Hér er á ferðinni einn flottasti stílisti sem ég hef komist í tæri við. Prósinn er alveg tær og laus við grugg, hann rennur yfir mann áreynslulaust. Og Gaiman tekst svo vel upp með þennan stíl, hann rennur svo áreynslulaust sinn farveg, að maður lætur blekkjast og hugsar með sér: svona á maður að skrifa, þetta er auðvelt og fallegt. Ha! Því er einmitt öfugt farið: geysimikil vinna að baki því að senda frá sér svona líka slípaðan, agaðan og á sama tíma töfrandi texta.

Ég verð að bara að endurtaka mig: VÁ!

Ég er semsé nýjasti áhangandi Neils Gaimans. Hann er sparsamur á orð en dregur mann inn í töfrandi og ríkulegan heim og hann segir sögur af furðuverum í furðuheimum sem ekki eru til á sama tíma og hann tekst á við það allra raunverulegasta, þ.e.a.s. hvað manneskjan stendur frammi fyrir í þessum hérna heimi, þessum heimi okkar. Var ég búin að minnast á hvað sagan er áreynslulaus? Maður liggur í uppblásnum hringnum og lætur strauminn bera sig hring eftir hring í straumlauginni á meðan sólin vermir manni. Þannig les maður þessa bók.

Það þarf engu að breyta í þessu verki. Ekkert er of, ekkert er van. Ég rakst á einn bókadóm þar sem gagnrýnandinn vildi meina að sagan væri svo góð að hún hefði vel getað verið án töfra/fantasíuelementanna. Ég get ekki setið á mér og verð að segja: Þá skildirðu bara ekki söguna góði minn. Eða varst þú kannski í fyrra lífi keisarinn sem sagðir við Mozart: Úff, of margar nótur í þessu verki maður.

Hér er ekkert of, ekkert van, bara akkúrat eins og það á að vera. Vá.

The Snow Child (2012)
Það var svolítið fyndið að lesa bók með þessum titli í heitum ágústmánuði. En kannski ætti það einmitt að vera svona: lesa sumarbækur á veturnar og fá hlýju í hjartað, og vetrarbækurnar á sumrin svo manni verði síður kalt.

Eníveis, þetta er falleg saga og vel samin. Sögusviðið er Alaska og sögutími er 1920 og uppúr. Hún segir frá hjónum, Jack og Mabel, sem ákveð að flytja úr stórborginni yfir til Alaska. Þar byggja þau sér bjálkakofa og yrkja landið við erfiðar aðstæður. Þeim hefur ekki auðnast að eignast börn, en eitt kvöldið fara þau út í snjóinn og í gamni útbúa þau snjókarl sem verður að snjóstelpu. Næsta dag er snjóstelpan horfin og spor hennar leiða út í auðnina.

Ég hef mjög gaman af sögulegum skáldskap, og þegar hann blandast saman við töfraraunsæi og heillandi sögusvið, og eins og Alaska reynist vera, þá er kominn ansi traustur grunnur að góðri sögu. Í tilviki The Snow Child bætist ofan á þennan grunn góð karaktersköpun, áhugaverð framvinda og fallegur prósi. Rithöfundinum, Eowyn Ivey, hefur tekst mjög upp hér. Mæli með þessari.

The Shipping News (1993)
The Shipping News eftir Annie Proulx er bók sem við eigum einhversstaðar í kassar, í íslenskri þýðingu. Upp á íslensku kallast hún Skipafréttir og vísar titillinn í dálkinn sem aðalsöguhetjan skrifar fyrir dagblað.

Mig hefur lengi langað til að lesa þessa bók, og fyrir því eru tvær ástæður: Í fyrsta lagi, við eigum bókina, og þar með fer hún óhjákvæmilega á listann sem skrifaður er bak við eyrað, og í öðru lagi þá er Baldur búinn að lesa hana (á undan mér!) og hefur sitt á hvað mælt með henni við mig og nuddað mér upp úr því að vera ekki búin að lesa hana.

Mikið er ég fegin að þessa bók rak á fjörur mínar. Hér er aftur á ferðinni áhugavert og sjaldgæft sögusvið í boði: Nýfundnaland. Hversu oft rekst maður á það í skáldskap? Að því sögðu, þá er best að vara við stílnum. Annie Proulx er hörkustílisti, og ég get ekki ímyndað mér annað en að maður þekki verk hennar í sjómílufjarlægð. En það sem gefur sögunni sitt sérstaka yfirbragð (magnað stílbragð) getur, að ég ímynda mér, að sama skapi fælt marga frá, því auðvitað fellur svona sterkur og sérkennilegur stíll ekki að smekk allra. Ég er til að mynda mjög fegin að hafa lesið þessa bók núna en ekki fyrir tíu árum þegar ég var mun óreyndari bókaormur, sem þó taldi sig vel lesinn.

Góðu fréttirnar fyrir mig er að ég las hana ekki þá heldur núna, og gat notið textans og sögunnar alveg í botn. Framvindan er ekki aðalaðdráttarafl þessarar sögu, því hún er tiltölulega hófleg, þ.e.a.s. ekki svo margt sem gerist fyrir utan það að í byrjun sögunnar verður aðalpersónan ekkill og einstæður tveggja barna faðir sem flyst á æskuslóðirnar með aldraðri frænku sinni.

Það eru persónurnar sem halda sögunni uppi: knúa hana áfram, róa henni yfir fjörðinn, strjúka á henni kollinn. Persónurnar í sögunni eru sérvitrar, breiskar, kostulegar, forvitnilegar, eigingjarnar, hlýjar, litríkar, eftirminnilegar. Þær eru allar frábærar á sinn hátt, og þegar persónulitrófið er orðið svona þétt þarf ekki magnað plott því hver persóna heillar mann svo að maður les bara til að heyra í þeim.

Þessari mæli ég með við sjóaða bókaorma sem þola smá ágjöf.

The Bean Trees (1988)
Hér er önnur bók sem ég hef ætlað mér að lesa í svolítinn tíma. Ég man að eina verslunarmannahelgina, hugsanlega 2009, fór ég á bókasafnið og fékk slatta af bókum að láni, m.a. The Bean Trees eftir Barböru Kingsolver. Ég byrjaði á henni en síðan drógst athygli mín eitthvert annað og ég skilaði henni á safnið ólesinni. Í staðinn er hún búin að vera á Verð að klára-listanum mínum, og ekki bara af því að ég get sýnt af mér svo fína þráhyggjutakta, heldur líka af því að ég vil lesa fleiri verk Barböru Kingsolver. Og það er út af bókinni The Poisonwood Bible. Þetta umrædda sumar las ég nefnilega The Poisonwood Bible sem er hennar þekktasta verk og hefur selst í yfir milljón eintökum. Í stuttu máli sagt þá heillaði sú saga mig alveg upp úr skónum. Ég var því meira en lítið til í að lesa The Bean Trees.

The Bean Trees er hlýleg saga. En æ, nú hljómar þetta eins og dulbúið háð sem er alls ekki hugmyndin. Sagan er karakterdrifin, og í þessari sögu er fjallað um fólk sem aðstoðar hvert annað í þessum heimi, ergo hlýleg saga. Virkilega góð saga og vel skrifuð. Við kynnumst aðalpersónunni, Taylor Greer, þegar hún er að yfirgefa heimahagana í Kentucky til að flytja til Tucson í Arozina. Á leiðinni, meðan hún rúntar þennan spöl á hikstandi bíl, tekur hún að sér munaðarlausa stúlku og sagan fjallar að sjálfsögðu um þá breytingu á lífinu, auk þess sem nýir vinir í Tucson koma með sín vandamál inn í söguna.

Góð bók sem ég get mælt með.

The Cuckoo's Calling (2013)
Ég heyrði ekkert af þessari bók fyrr en fyrir nokkrum vikum, þegar í ljós kom að nafn höfundarins, Robert Galbraith, væri dulnefni og að raunverulegur höfundur bókarinnar væri engin önnur en Harry Potter drottningin J.K. Rowling. Vá, það eru stórar fréttir, og bókablogg loguðu í skamman tíma á þessari frétt.

Ég lét tilleiðast, eftir að hafa kynnt mér innihald og nokkra dóma, að lesa bókina. Nú hef ég bara lesið Harry Potter gersemarnar hennar og þekki hana því bara í því samhengi. The Cuckoo's Calling er að sjálfsögðu ekkert í líkingu við Harry Potter, og ég tek bara ofan af fyrir þeim sem gátu giskað á út frá stíl og orðfæri að hér væri J.K. Rowling á ferðinni. Ég á ekki séns í solleiðis galdrakúnstir.

Bókin er alveg ágæt, en það er kannski best að ég taki fram að ég er frekar hörð í gagnrýni þegar glæpasögur eiga í hlut. Ég er jafnvel út í það að vera pínu ósanngjörn. Ef mér finnst höfundur á einhverjum tímapunkti fipast bogalistin þá er ég alveg: Aha! Ef ég skynja ósamræmi/misræmi eða finnst höfundur henda inn ótrúverðugri atburðarás sem ég veit að þjónar einungis þeim tilgangi að fylla upp í plottgöt, þá ranghvolfi ég augunum eins og árið sé '94.

Að þessu sögðu, þá er sagan fínasta afþreying og J.K. Rowling spinnur fínan vef með plotti og undirplotti, allt eftir formúlunni. Veikasti hlekkurinn, þegar ég lít framhjá ósveigjanlegri ósanngirni minni í garð glæpasagna, eru karakterar og sögusvið, sem hvoru tveggja var í mínum huga óáhugavert. Þá vil ég frekar Jackson Brodie hennar Kate Atkinson.

Þá er það klappað og klárt, þetta voru bækur ágústmánaðar, og nú slaufa ég þessu bókarabbinu. Góðar stundir.

Engin ummæli: